Í fjórða þætti Kaupmannahafnar, höfuðborgar Íslands, sem verður sýndur í kvöld, erum við Guðjón Friðriksson komnir inn í hjarta gamla bæjarins í Höfn. Við fetum í fótspor lærdómsmanna sem fóru til Kaupmannahafnar, allt frá Guðbrandi Þorlákssyni til Jóns Helgasonar.
Jón Sigurðsson leigði í Klosterstræde 19 og hugsaði lítið um pólitík fyrr en eftir að hann veiktist af hvimleiðum sjúkdómi. Í Sívalaturni er kamar þar sem vist er að landar sem störfuðu á Turni hafi gengið örna sinna, þar var til dæmis Jón Ólafsson Grunnvíkingur. Í kirkjugarðinum sem er bak við Þrenningarkirkju eru týnd bein margra Íslendinga; alls konar sóttir herjuðu á stúdenta sem komu til náms í Kaupmannahöfn og dánartíðnin var há.
En hinum megin við götuna er Garður þar sem Íslendingar nutu forréttinda, fengu að búa ókeypis, og þar uppfóstraðist íslensk mennta- og embættismannastétt. Víst er að Íslendingar hefðu orðið miklu danskari ef Íslendingar hefðu ekki notið þessarar skólagöngu. Og á Garði má finna rætur íslenskrar sjálfstæðisbaráttu; þangað bárust straumar sunnan úr Evrópu eins og í júlíbyltingunni 1830 og febúarbyltingunni 1848.
Þar nálægt var svo handritasafn Árna Magnússonar sem lenti í eldsvoðanum mikla 1728. Og þar á móti Borch kollegium, en þar í fundarsal voru haldnir fundir í Kaupmannahafnardeild Hins íslenska bókmenntafélags. Ein sagan sem er sögð er af ungum manni, Þórhalli Bjarnasyni, sem síðar varð biskup. Hann dirfðist að gera athugasemd við fundarstjórn Jóns Sigurðssonar. Því var ekki vel tekið.