Ummæli Pírataþingmannsins Jóns Þórs Ólafssonar á Pírataspjallinu á Facebook, um að koma dómsmálaráðherra úr stóli sínum, hafa vakið nokkur viðbrögð. Jón Þór situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og segir á Pírataspjallinu að markmiðið sé að koma ráðherranum frá:
„Við getum ekki knúið það fram að hún víki strax. En við getum haldið málinu lifandi með rannsókn sem er það líklegasta í stöðunni til að fá hana til að axla ábyrgð.“
Jón Þór boðaði vantrauststillögu á dómsmálaráðherra í nóvember, ef hún yrði áfram ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Kollegi Jóns Þórs í nefndinni, Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerir athugasemdir við orðfæri Jóns á Facebooksíðu sinni, sem hann tengir við frétt Mbl.is um málið:
„Stjórnmálamenn segja ekki alltaf sannleikann eða hug sinn. Hér er gott dæmi um hreinskilni hvort sem henni réði sannleiksást eða einföld mistök. Ekki neitaði þingmaðurinn í umræðum á þinginu að rétt væri eftir honum haft í þessu viðtali. Því er ekki hægt að draga aðra ályktun með góðu móti en verið sé að beita stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd þingsins til að koma pólitísku höggi á ráðherrann og ríkisstjórnina. Gaman væri að vita hvort og hverjir aðrir meðlimir nefndarinnar eru sammála Píratanum. Bið bara um hreinskilið svar.“
Þá gagnrýnir Brynjar vinnubrögð Pírata í málinu og segir þá munu enda á ruslahaugum sögunnar:
„Ef ég man rétt hafa Píratar lagt sérstaka áherslu á að bæta vinnubrögð þingsins og auka virðingu þess. Þetta er allavega ekki góð byrjun. Ég spáði ekki fyrir löngu að Píratar myndu fyrr en seinna enda á ruslahaugum sögunnar. Ég ætla að halda mig við þá spá.“
Í nýlegri umfjöllun Stundarinnar um Landsdómsmálið voru lögð til grundvallar ný gögn, meðal annars tölvupóstssamskipti sérfræðinga sem vöruðu dómsmálaráðherra við afleiðingum þess að leggja tillöguna fram í þeirri mynd sem síðan varð.
Haft er eftir Jóni að hann hafi kallað eftir þessum gögnum á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Aðspurð hvort hún teldi að einhver nefndarmanna hefði lekið gögnunum til Stundarinnar, sagði Sigríður Á. Andersen ekkert geta fullyrt um það, en aðeins nefndin hefði fengið gögnin í hendurnar.