Björn Bjarnason kemur Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, til varnar í pistli á heimasíðu sinni í dag. Öll spjót hafa staðið á Sigríði eftir að Hæstiréttur dæmdi hana brotlega gagnvart lögum í Landsdómsmálinu. Þá birti Stundin ný gögn í gær sem sýndu að Sigríður virti að vettugi lögfræðiráðgjöf þess lútandi að hún þyrfti að breyta tillögu sinni áður en hún lagði hana fram til Alþingis, ellegar gæti það komið henni í koll.
Björn setur enn og aftur út á fréttaflutning RÚV, segir miðilinn leita „logandi ljósi“ að stjórnmálamönnum sem vilji að hún segi af sér, og áfram verði róið á þau mið, þar sem lítið hafi veiðst í morgun. Er Björn að vísa til ummæla Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Rás 2 í morgun, þar sem Páll varði gjörðir dómsmálaráðherra og sagði út í hött að krefjast afsagnar ráðherra vegna málsins.
Í sama streng tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sem vildi þó að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins færi yfir málið.
Kenning Björns um vinnubrögð RÚV verður að teljast ólíkleg, miðað við þá viðmælendur sem Rás 2 valdi sér í morgun, þar sem engin skortur er á þingmönnum sem krefjast afsagnar dómsmálaráðherra.
Þá vitnar Björn í pistil Jóns Steinars Gunnlaugssonar sem birtist á Eyjunni í morgun og segir Jón Steinar réttilega halda því fram að dómaraelítan vilji ráða hverjir skipi embætti dómara, þetta sé barátta um völd.
Björn vitnar einnig í orð Guðna Th. Jóhannessonar forseta, sem sagði í yfirlýsingu þann 8. Júní vegna skipunar dómara í landsrétt:
„Hinn 6. júní ákvað ég að afla staðfestingar á þeirri atvikalýsingu sem fram hafði komið í fjölmiðlum og mér höfðu einnig borist eftir öðrum leiðum. Einnig vildi ég vita hvort skrifstofa Alþingis og lögfræðingar þar teldu hugsanlegt við nánari athugun að ekki hefði verið staðið rétt að atkvæðagreiðslunni 1. júní. Ég fól forsetaritara að afla upplýsinga frá skrifstofu Alþingis um tilhögun atkvæðagreiðslunnar, aðdraganda hennar og umræður á undirbúningsfundum þingmanna, með hliðsjón af áðurnefndu bráðabirgðaákvæði dómstólalaga og ákvæðum þingskapa um atkvæðagreiðslur.“
Björn vitnar í niðurstöðu Guðna og segir hana ótvíræða:
„Með hliðsjón af öllum þeim málavöxtum sem hér hafa verið raktir komst ég að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu ekki átt sér stað við undirbúning og tilhögun
atkvæðagreiðslunnar 1. júní [um skipun dómara] og hún hefði verið í samræmi við lög, þingvenju og þingsköp.“
Þá segir Björn að lokum, að það myndi kóróna fáránleikann, kæmist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherrann bæri einn sök:
„Einsdæmi er að forseti Íslands óski eftir sérstakri athugun á vinnubrögðum alþingis áður en hann ritar undir erindi sem þaðan berst. Kæmist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis nú að því að öll „sök“ í þessu máli hvíldi á herðum dómsmálaráðherra yrði það aðeins til að kóróna fáránleikann í málflutningi þeirra sem krefjast afsagnar ráðherrans. Það var niðurstaða rannsóknar á vegum alþingis að beiðni forseta Íslands að réttilega hefði verið staðið að gerð tillögunnar til forseta. Ætlar þingnefnd nú að éta það ofan í sig?“