Miðflokkurinn hefur neyðst til þess að senda út fréttatilkynningu til ítrekunar þess, að flokkurinn vilji sjá staðsetningu nýs Landsspítala, annarsstaðar en við Hringbraut. Segir í tilkynningu að ítrekað hafi verið ranglega fullyrt af fjölmiðlum, ráðherrum og þingmönnum, að allir flokkar á þingi séu því fylgjandi að staðsetningin verði við Hringbraut.
Í tilkynningunni segir:
„Ítrekað hefur komið fram ranglega í máli ráðherra, þingmanna ríkisstjórnarinnar og fjölmiðlamanna að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi séu fylgjandi því að nýr Landspítali skuli byggður upp við Hringbraut. Þessari rangfærslu til stuðnings er gjarnan vísað til þingsályktunar sem samþykkt var rétt fyrir þinglok 2014. Upphaflega tillagan sem lögð var fram sagði að ríkisstjórn skyldi falið að ljúka svo fljótt sem verða mætti undirbúningi byggingar Nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja byggingu hans.
Um þessa tillögu var engin samstaða á Alþingi og var hún raunar notuð til að taka þingstörf í gíslingu við þinglok. Meðal þeirra sem stóðu algerlega gegn þessari tillögu um byggingu nýs Landsspítala við Hringbraut var þáverandi forsætisráðherra og núverandi formaður Miðflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Til málamiðlunar og til að liðka fyrir þinglok var tillögunni breytt á þann veg að ríkisstjórn var falið að ljúka undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut, en hvergi var þar talað um að nýr Landspítali skyldi byggður við Hringbraut.
Það er því alrangt að þessi tillaga geti talist einhvers konar samhljóða álit stjórnmálaflokka um framtíðarstaðsetningu nýs Landspítala. Þvert á móti var engin samstaða um það.
Þar fyrir utan var Miðflokkurinn ekki aðili að samþykkt umræddrar tillögu af augljósum ástæðum.
Miðflokkurinn ítrekar staðfastlega þá afstöðu flokksins að það séu alvarleg og afdrifarík mistök til framtíðar að byggja nýjan Landspítala við Hringbraut, eins og skýr rök frá fjölmörgum fagaðilum hafa ítrekað sýnt fram á.“