Borgarráð ákvað á síðasta fundi að heimila umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar að bjóða út áframhaldandi framkvæmdir á skóla og íþróttamannvirkjum í Úlfarsárdal.
Framkvæmdir hafa staðið yfir við skólamannavirki í Úlfarsárdal frá árinu 2015 og var fyrsti áfanginn, 820 fermetra leikskólabygging, tekinn í notkun haustið 2016. Þessi misserin er verið að byggja grunnskólann sem er 6852 fermetrar að stærð. Skólinn verður tekinn í notkun í áföngum og er stefnt að því að fyrsti hluti hans verði tekinn í notkun í haust.
Borgarráð heimilaði nú að áframhaldandi framkvæmdir við mannvirkin í Úlfarsárdal yrðu boðin út. Hafist verður handa við að byggja menningarmiðstöð ásamt inni- og útisundlaug en einnig sameiginleg rými sem tengja grunnskólann, menningarmiðstöðina og sundlaugina. Áætlað er þessi áfangi kosti 3.300 milljónir króna sem er með stærri útboðum hjá Reykjavíkurborg.
Lagt er upp með að hefja framkvæmdir við í apríl á þessu ári.
Samningur við íþróttafélagið Fram var samþykktur í borgarráði í júlí síðastliðnum. Skipuð var sérstök byggingarnefnd með fulltrúum félagsins. Áætlað er að hönnun íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal verði lokið á þessu ári og framkvæmdir hefjist þá strax.
Áætlaður heildarkostnaður uppbyggingar í Úlfarsárdal er tæpir tólf milljarðar króna.