Þórir Guðmundsson hefur verið ráðinn fréttastjóri Stöðvar 2, Bylgjunnar og vísir.is. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone.
Þórir er með meistaragráðu í alþjóðlegum samskiptum frá Boston University og B.A. gráðu í Blaða- og fréttamennsku frá University of Kansas. Þórir starfaði sem fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2, fyrst á árunum 1986 til 1999 og svo á árunum 2005 til 2008. Þá hefur Þórir starfað mikið á vegum Rauða Krossins, bæði hér heima og erlendis, og gegndi nú síðast starfi forstöðumanns Rauða Krossins í Reykjavík.
Þann 1. desember síðastliðinn tóku Fjarskipti hf., móðurfélag Vodafone á Íslandi, við rekstri Stöðvar 2, Bylgjunnar og vísir.is.
„Ég tel að ráðning Þóris sýni í verki metnað Fjarskipta til að reka áfram öfluga fréttastofu sem býr við ritstjórnarlegt sjálfstæði, enda er fréttamiðlun lykilþáttur í starfsemi umræddra miðla. Þessir miðlar hafa skipað stóran sess í fréttamiðlun þjóðarinnar um langt skeið og við viljum tryggja að svo verði áfram undir forystu nýs fréttastjóra,“
segir Björn Víglundsson framkvæmdastjóri Miðla Fjarskipta.
Ráðning nýs fréttastjóra var unnin í samvinnu við Capacent.