Ætli nokkur ríkisstjórn um langa hríð hafi lifað jafn rólega tíma í upphafi stjórnartíðar sinnar og sú sem settist að völdum 30. nóvember. Það hefur verið svolítill ófriður í kringum dómsmálaráðherrann, en að öðru leyti hefur varla ýft vind í pólitíkinni.
Líklega þarf að leita allt aftur til síðustu aldar til að finna dæmi um annað eins. Síðasti áratugur 20. aldar var Davíðstíminn á Íslandi, þá fannst manni um tíma eins og pólitíkin væri hætt. Þetta átti reyndar ekki bara við á Íslandi, tíminn frá 1992 og fram yfir aldamótin var gerólíkur hinum pólitíska veruleika eins og hann er í dag. Það var uppgangur, menn töluðu eins og vestrænt lýðræði og markaðshyggja hefðu sigrað endanlega.
Pólitískir fjaðurvigtarmenn eins og Bill Clinton, Tony Blair og Gerhard Schröder döfnuðu bara vel í þessu ástandi. Ein meginhugmyndin var líka sú, og mætti ekki mikilli andstöðu, að færa markaðnum helst öll völd.
Sú var líka hugmyndin hér á Íslandi.
Veruleikinn er allt annar í dag. Hið pólitíska umhverfi er allt miklu óstöðugra og í raun vandasamara fyrir þá sem fást við stjórnmál. Því skal samt spáð hér að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur geti siglt lyngnan sjó nokkuð lengi enn – nema eitthvað óvænt komi upp á. Maður veit auðvitað aldrei.