Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, afhenti Alice Bah Kunke, menningarmálaráðherra Svíþjóðar, til gjafar Íslendingasögurnar í sænskri þýðingu við hátíðlega athöfn í Uppsölum í dag. Í ræðu sinni rakti ráðherra sagnaarfinn og þýðingu Íslendingasagnanna enn þann dag í dag. „“Ber er hver að baki nema bróður sér eigi“, segir í sögnunum og er þar vísað til vopnaðra bardaga, en í dag má heimfæra spakmælin upp á norræna samvinnu og sameiginlegt öryggi Norðurlandanna á tímum aukinnar óvissu og spennu,“ sagði Guðlaugur Þór.
Í gær fundaði utanríkisráðherra með Ann Linde, Evrópumála- og viðskiptaráðherra Svíþjóðar, þar sem málefni Evrópu, Brexit og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar voru meðal annars til umfjöllunar. Þá fundaði utanríkisráðherra með Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, þar sem öryggismál á Eystrasaltssvæðinu og norðanverðu Atlantshafi, og aukin varnarsamvinna Íslands og Svíþjóðar, voru til umræðu.
Opinberri heimsókn forseta Íslands í Svíþjóð lýkur í dag.