Donald Trump Bandaríkjaforseti var sagður við hestaheilsu í reglubundinni læknisskoðun sinni á dögunum, þegar hann var skoðaður af lækni Hvíta hússins, Dr. Ronny L. Jackson. Sagði læknirinn að hjarta- og æðakerfi Trumps væri í fínu standi, þrátt fyrir að LDL kólesteról magnið mældist 143, sem er langt yfir viðmiðunarmörkum.
LDL kólesteról er gjarnan nefnt „vonda“ kólesterólið, þar sem það getur leitt til hjarta- og æðasjúkdóma. Samkvæmt frétt NY Times er miðað við að magnið sé undir 100, svo það teljist hættulítið.
Læknar sem ekki eru tengdir Hvíta húsinu, hafa hver af öðrum stigið fram og lýst áhyggjum sínum yfir ástandinu á hjarta- og æðakerfi forsetans. Dr. David Maron, yfirmaður hjá læknaháskóla Stanford, segir það varhugavert að kólesterólmagnið sé yfir 140, jafnvel þó að forsetinn sé að taka Crestor, lyf sem lækki eigi kólesterólmagnið niður fyrir 100.
Maron sagði að ef Trump væri sjúklingur sinn, hefði hann miklar áhyggjur af áhættunni á hjartaáfalli. Aðspurður hvort Trump væri við hestaheilsu, sagði Maron: „Guð nei!“
Aðrir læknar hafa líka sagst hafa áhyggjur af heilsufari Trump, ekki síst með tilliti til aldurs, þyngdar og hreyfingaleysis hans. Þá spyrja aðrir hvert kólesteról magn hans hafi verið áður en hann fékk lyf við því og hversu lengi hann hafi tekið lyfið, það skipti allt máli.
Dr. Jackson sagði hinsvegar að Trump hvorki reykti né drykki og hefði ekki sykursýki. Þá hefði hjartaskimun sýnt að hjarta Trump væri í eðlilegu ástandi.
Skýringin á háu kólesterólmagni Trump liggur eflaust í mataræði hans, en Trump er sagður neyta mikils magns af ruslfæði, sem hann skoli niður með Diet Coke.