Miðflokkurinn stofnaði flokksfélag Suðvesturkjördæmis í gærkvöldi í Glersalnum í Kópavogi, samkvæmt tilkynningu frá Miðflokknum.
Gestir fundarins voru þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Suðvesturkjördæmis.
Miðflokksfélag Suðvesturkjördæmis er annað kjördæmafélag Miðflokksins sem stofnað er, en nýlega var stofnað Miðflokksfélag í Suðurkjördæmi. Félagið hefur, samkvæmt nýsamþykktum lögum þess, þann tilgang að vinna að bættum hag íbúa Suðvesturkjördæmis og gæta hagsmuna þeirra á vettvangi lands- og sveitarstjórnarmála. Félagið hyggst virkja rödd fólks í Suðvesturkjördæmi, koma skynsamlegum hugmyndum almennings í framkvæmd, hafa áhrif á og móta stefnu Miðflokksins og starfa innan hans.
Í stjórn Miðflokksfélags Suðvesturkjördæmis voru kosin þau Una María Óskarsdóttir formaður, Örn Bergmann Jónsson, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, Þórarinn Þórhallsson og Halldóra Baldursdóttir. Varastjórn skipa þau Aðalsteinn J. Magnússon, Sigurrós Indriðadóttir og Einar Baldursson.
Samkvæmt tilkynningunni óskar Miðflokkurinn eftir framboðum frá áhugasömum einstaklingum sem hafa áhuga á að vera á framboðslistum Miðflokksins í Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ.
Áhugasömum er bent á að hafa samband við formann Miðflokksfélags Suðvesturkjördæmis, Unu Maríu Óskarsdóttur á tölvupósti unamaria@unamaria.is eða í síma 896-4189.