Hannes Hólmsteinn Gissurason er höfundur skýrslu um bankahrunið, hvers útgáfa hefur ítrekað frestast. Skýrslan átti fyrst að koma út fyrir um þremur árum, síðan lofaði Hannes útgáfu hennar síðla í nóvember, en frestaði þá útgáfu hennar aftur til 16. janúar, þar sem hann vildi veita þeim sem skýrslan fjallar um, ráðrúm til að koma með athugasemdir.
Sá frestur virðist ekki hafa verið nægilega langur, því Hannes hefur enn á ný frestað skýrslunni um ótilgreindan tíma, þar sem hann vill gefa umfjöllunaraðilum enn lengri frest til þess að koma með athugasemdir.
Skýrslan sjálf er þó löngu tilbúin, en hún er skrifuð á ensku. Formaður íslenskrar málnefndar, Guðrún Kvaran, sagði við Stundina, að það væri ótækt að skýrslan væri á ensku, það sem það bryti í bága við 8. grein laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, þar sé skýrt kveðið á um að íslenska sé mál Alþingis, dómstóla og stjórnvalda, en skýrslan er gerð að áeggjan Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem greiðir Hannesi 10 milljónir króna fyrir gerð skýrslunnar.
Á Facebooksíðu sinni í dag segir Hannes að hann skuli fúslega skrifa skýrsluna á íslensku. Er hann að fjalla um skrif Björns Bjarnasonar og tilgátu, um hvers vegna Bandaríkjamenn hjálpuðu ekki Íslandi í bankahruninu, sem Hannes segist reyna að skýra sjálfur í hinni frægu, óútkomnu, skýrslu:
„Björn Bjarnason hefur rétt fyrir sér um, að ein gátan í bankahruninu er, hvers vegna Bandaríkjamenn hjálpuðu okkur ekki. Ég reyni að skýra það í væntanlegri skýrslu (sem ég skal fúslega skrifa líka á íslensku): “
Spurningin sem þá brennur á skattgreiðendum er, hvað sú þýðing skyldi kosta og hvað hún tæki langan tíma ?