Björn Valur Gíslason, fyrrum varaformaður Vinstri grænna, veltir því fyrir sér á heimasíðu sinni hvort að Árni Páll Árnason, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, sé ekki vel til þess fallinn að liðsinna ríkisstjórninni þegar kemur að málefnum ESB og Brexit.
Björn Valur dáðist að framgöngu Árna Páls í Silfrinu um helgina, hvar hann ræddi Brexit af „ágætri þekkingu“ og telur Björn Valur að umfjöllun Árna um Brexit og ESB sem hann birti á síðasta ári hafi verið almennt trúverðug.
Björn segir að Árni geti nýst ríkisstjórninni, þó svo engin áform séu uppi um að ganga í ESB:
„Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur engin áform uppi um að sækja um aðild að eða efla samskipti Íslands við ESB frekar. Allir stjórnarflokkarnir eru því andvígir þó vissulega séu skiptar skoðanir innan þeirra um þau mál, aðallega innan Vinstri grænna og sjálfstæðisflokks. Það breytir því ekki að stjórnin þarf að takast af alvöru og skynsemi á við þau verkefni sem upp kunna að koma á þessum vettvangi. Brexit er eitt slíkt og það af stærri gerðinni. Það væri fengur í því fyrir stjórnina að fá Árna Pál Árnason til liðs við sig í þeim tilgangi. Fáir eru betur til þess fallnir,“
segir Björn Valur.