Atvinnuveganefnd hefur störf á morgun að loknu jólaleyfi. Nú ber svo við að eingöngu konur stýra starfi nefndarinnar. Lilja Rafney Magnúsdóttir VG, er formaður, Inga Sæland Flokki fólksins er 1. varaformaður og Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki er 2. varaformaður.
Mun það ekki hafa áður gerst að eingöngu konur veittu þessari nefnd eða fyrirrennurum hennar forystu. Má því segja að það sé vel við hæfi að á fyrsta fundi nefndarinnar á þessu ári kynna fulltrúar Félags kvenna í atvinnurekstri starfsemi félagsins fyrir fulltrúum í atvinnuveganefnd.
Atvinnuveganefnd varð til eftir breytingar á þingskapalögum árið 2011 sem leiddu til þess að fastanefndum þingsins var fækkað úr 12 í 8. Atvinnuveganefnd fjallar um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækniþróun og hvaðeina sem viðkemur atvinnumálum almennt og nýtingu auðlinda.