Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segist áfram vilja starfa sem slíkur, en hann var ráðinn af núverandi meirihluta eftir sveitastjórnarkosningarnar árið 2014, en meirihluta skipa Bein leið, Frjálst afl og Samfylking. Kjartan er fyrrum bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins en var ráðinn á faglegum forsendum, ekki pólitískum. Þetta kemur fram í Víkurfréttum.
Aðspurður hvort hann vildi starfa áfram, óháð því hvaða meirihluti næði völdum, sagði Kjartan:
„Ég hef nú verið spurður að þessu og er svo sem að velta því fyrir mér núna. Ég held ég verði að svara því játandi, ég er alveg til í það. Við erum úti í miðri á. Ég held að það gæti bara verið af hinu góða að menn fengju að klára það verkefni. Auðvitað er það svo undir því komið hverjir verða í meirhluta, hvort þeir kæri sig um að hafa mig eða einhvern annan, það verður bara að koma í ljós, en ég er til.“
Kjartan var fenginn til þess að taka fjármál Reykjanesbæjar föstum tökum, en þau voru í afar slæmri stöðu eftir langa setu fyrrverandi meirihluta. Kjartan var spurður hvort þetta hefði verið erfitt verkefni:
„Þetta voru bara verkefni sem voru óhjákvæmileg og það þýðir ekkert að velta því fyrir sér hvort þau voru erfið eða hvort það var eitthvað framundan sem þú þurftir að hafa áhyggjur af. Þetta var óhjákvæmilegt og við fórum í alls konar endurskipulagningar og hluti sem eru að skila okkur því núna, ásamt náttúrulega auknum fjölda íbúa og þar með auknum tekjum. Þær tölur sem ég er að horfa á núna fyrir síðastliðið ár, 2017, sýna að grunnrekstur Reykjanesbæjar hefur aldrei verið betri heldur en á síðasta ári. Við erum að sjá mjög flotta útkomu út úr því og það kannski samanstendur af því að, eins og ég segi, tekjur hafa verið að aukast en við höfum verið að nýta innviðina betur þannig við höfum ekki enn þurft að leggja út í mikinn kostnað en það bíður handan hornsins, við vitum af því. Við erum að byrja byggingu nýs skóla í Innri Njarðvík sem mun kosta milljarða króna. Það bíða okkar alls konar fjárfestingar og til þess að geta farið í þær þá verður sveitarfélagið að vera rekið réttu megin við núllið, annars er þetta bara endalaus skuldasöfnun. Þannig getur maður ekki rekið sveitarfélag, heimili eða fyrirtæki til langs tíma.“