Samkvæmt Litlu frjálsu fréttastofunni er hart lagt að Gunnlaugi Helgasyni, fjölmiðlamanni og smið, að bjóða sig fram undir nýjum lista í komandi borgarstjórnarkosningum. Er sagt að hann muni fara fram undir slagorðinu „Gulli byggir betri borg“ með vísun í sjónvarpsþætti hans, „Gulli byggir“.
Eyjan hafði samband við Gulla vegna málsins þar sem hann neitaði þessum fréttum afdráttarlaust:
„Þetta er nú algert bull. Við vorum að grínast með þetta vinirnir í matarboði á laugardaginn og ég minntist á að ég væri nú með gott slagorð í þetta, Gulli byggir betri borg, en þetta er nú fullbrött frétt. Mér líður bara vel þar sem ég er. Það voru reyndar einhverjir sem sögðu þetta nú ekki vitlausa hugmynd, ég gæti farið langt á slagorðinu, en ég hugsaði með mér nei, þetta væri nú ekki minn tebolli. Ég hef auðvitað skoðanir á öllu, en ég er í góðri stöðu í Bítinu, er með vettvang þar til að ræða um allskyns hluti og ný sjónarmið,“
sagði Gulli hlæjandi.
Jón Axel Ólafsson fjölmiðlamaður, er maðurinn á bak við Litlu frjálsu fréttastofuna, en þeir Gulli eru góðir vinir og muna margir eftir útvarpsþætti þeirra á Bylgjunni forðum daga, Tveir með öllu. Var því um vinahrekk að ræða í þetta skiptið, en slagorðið er óneitanlega grípandi.