Þegar ég var að alast upp sem blaðalesandi var Þjóðviljinn ágætt blað, hafði meðal annara á að skipa frábærum blaðamönnum eins og Guðjóni Friðrikssyni, Ingólfi Margeirssyni – að ógleymdum Árna Bergmann. Sunnudagsblaðið var rómað fyrir greinar, viðtöl og uppsetningu. Ég er of ungur til að hafa lesið greinarnar sem Magnús Kjartansson skrifaði undir heitinu Austri, þær þóttu gríðarlega hvassar og óvægnar á sínum tíma. Seinna las ég úrval af þeim á bók og komst að þeirri niðurstöðu að gæði þeirra hefðu verið ofmetin. Svona pólitískt efni eldist oft ekki vel.
Á vefnum Gamlar ljósmyndir birtist þessi mynd af húsi Þjóðviljans sem stóð á horni Skólavörðustígs og Klapparstígs. Myndin er tekin innan úr Njálsgötunni. Við sjáum að þarna er strætóstöð, þarna ók um hin fræga leið Njálsgata-Gunnarsbraut. Mér er í barnsminni að hafa ferðast með henni, en leiðakerfinu var breytt um 1970.
Myndin er líklega tekin á sjöunda áratugnum. Við sjáum að þetta er reisulegt hús með háu þaki og kvistum. Húsinu var síðar breytt, það er ekki sjón að sjá núorðið – ferkantað og með ljótri klæðningu. Þjóðviljinn var líka með prentsmiðju í húsinu – en svo tóku öll blöðin sig til, nema Morgunblaðið, stofnuðu eina prentsmiðju sem hafði aðsetur í Síðumúla og þangað fluttu Tíminn, Alþýðublaðið, Þjóðviljinn og Vísir. Gatan var fyrir vikið kölluð Blaðsíðumúli. Þar starfaði ég fyrstu ár mín í blaðamennsku – það var heldur tilkomulítið umhverfi.
Þessi blöð áttu í sífelldum fjárkröggum. Að nokkru leyti nutu þau fjárframlaga sem komu frá ríkinu í gegnum stjórnmálaflokkana sem ráku þau. Þjóðviljinn hélt úti frægu happdrætti og kepptust sósíalistar við að selja miðana til að halda málstaðnum á lofti.
Svo voru sögusagnir um styrki sem kæmu austan að, frá kommúnistalöndum. Sá Þjóðvilji sem ég man eftir var að mestu laus við þjónkunina við Sovétríkin. Eftir Ungó 1956 og Tékkó 1968 var fokið í flest skjól með það. En á sínum tíma var ekkert gefið eftir í stalínismanum á Þjóðviljanum, eins og sjá má á þessum leiðara, með sérstökum sorgarborða, sem birtist við andlát Stalíns 7. mars 1953 – skrifað af klökkum hug og djúpri virðingu fyrir einhverri „stórbrotnustu ævi, sem lifað hefur verið“.