fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Eyjan

Dýrustu og ódýrustu þingmennirnir: Þingkonur mikið dýrari en karlar

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 21. september 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Konur á þingi eru dýrari en karlar. Þetta má sjá á útgefnum tölum um laun og aðrar kostnaðargreiðslur til alþingismanna fyrir fyrstu sjö mánuði ársins. Mikil umræða hefur verið um laun þingmanna og annarra embættismanna að undanförnu enda hafa þeir fengið ríflegri hækkanir en flestir aðrir launþegar og hefur það valdið töluverðri ólgu á vinnumarkaði.

DV rýndi í tölurnar til að sjá hverjir væru dýrustu og ódýrustu þingmennirnir, dýrustu og ódýrustu flokkarnir, muninn á stjórn og stjórnarandstöðu, pólitískum skoðunum og kynjunum.

Steingrímur J. Sigfússon

Dýrustu þingmennirnir

  1. Steingrímur J. Sigfússon – 15.637.222 kr.
  2. Logi Einarsson – 15.179.363 kr.
  3. Ásmundur Einar Daðason – 14.459.034 kr.

Þegar DV gerði úttekt fyrr á árinu voru þessir þrír í sömu sætum. Þingforsetinn Steingrímur sem hefur setið á þingi síðan árið 1983 og gegnt flestum ráðherraembættum á ferli sínum. Steingrímur er með sömu föstu laun og ráðherrarnir en fær auk þess greiðslur fyrir að halda heimili í Þistilfirði. Hann hefur þó búið í Seljahverfinu í Reykjavík í minnst 30 ár.

Logi Einarsson, hjá Samfylkingu, fær 550 þúsund krónur ofan á þingfararkaupið fyrir að vera formaður í stjórnarandstöðuflokki. Auk þess heldur hann heimili á Akureyri og er í næstefsta sæti í föstum mánaðarlegum greiðslum og hefur verið í efra laginu á listanum yfir aðrar greiðslur.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmála- og nýskipaður barnamálaráðherra, vermir þriðja sætið á listanum. Hann er bæði ráðherra og landsbyggðarþingmaður og þiggur því greiðslur fyrir að halda heimili í Dalasýslu. Að miklu leyti er annar kostnaður ráðherra á huldu en það sem fleytir Ásmundi svo hátt eru tæplega 400 þúsund króna aukagreiðslur frá Alþingi sem er mun meira en aðrir ráðherrar fá, en flestir þeirra eru með engar.

Ódýrustu þingmennirnir

  1. Helgi Hrafn Gunnarsson – 7.825.283 kr.
  2. Björn Leví Gunnarsson – 8.261.657 kr.
  3. Guðmundur Ingi Kristinsson – 8.263.863 kr.

Píratinn Helgi Hrafn var í fimmta sæti yfir ódýrustu þingmennina þegar DV gerði sambærilegan lista fyrr á árinu. Hefur hann því hert sultarólina vel í sumar og lítið ferðast.

Sömu sögu má segja um félaga hans, Björn Leví, sem hækkar úr þriðja sæti í annað á listanum yfir ódýra þingmenn. Líkt og Helgi er Björn Reykjavíkurþingmaður sem ferðast lítið, eða að minnsta kosti lítið á kostnað Alþingis.

Guðmundur Ingi hjá Flokki fólksins var efstur á listanum í vor en hrapar nú niður í bronssætið. Guðmundur er þó langt því frá að vera eyðslukló. Sem dæmi um útsjónarsemi Guðmundar má sjá á vef Alþingis að hann tók innanlandsflug fyrir 905 krónur. Annaðhvort var þetta stysta flug sögunnar eða þá að hann hefur náð að prútta vel fyrir Íslands hönd.

Dýrasti þingflokkurinn

  1. Framsóknarflokkurinn – 12.336.217 kr. að meðaltali
  2. Vinstri græn – 11.622.957 kr.
  3. Sjálfstæðisflokkurinn – 11.381.963 kr.
  4. Samfylkingin – 11.130.111 kr.

Framsóknarmenn eru dýrustu þingmennirnir og kostuðu þeir tæpar 99 milljónir þrátt fyrir að vera aðeins átta talsins. Vega þar landsbyggðarþingmennirnir þungt sem og þrír ráðherrar flokksins. Eini þingmaður flokksins í Reykjavík er einmitt Lilja Dögg menntamálaráðherra.

Vinstri græn eiga dýrasta þingmanninn, þingforsetann Steingrím J. Sigfússon, og þrjá ráðherra. Einn þeirra er Katrín Jakobsdóttir sem er með hærri grunnlaun en aðrir ráðherrar. Ástæðan fyrir því að flokkurinn er ekki efstur er þrír Reykjavíkurþingmenn í ódýrari kantinum.

Litlu munar á meðaltölum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þrátt fyrir að hinn fyrrnefndi eigi fimm ráðherra. Hafa verður þó í huga að aðrir kostnaðarliðir ráðherra en grunnlaun eru ekki inni í þessum tölum.

Ódýrasti þingflokkurinn

  1. Píratar – 9.004.795 kr. að meðaltali
  2. Viðreisn – 9.690.662 kr.
  3. Flokkur fólksins – 10.169.925 kr.
  4. Miðflokkurinn – 10.732.059 kr.

Píratar eru langódýrustu þingmennirnir. Helsta ástæðan fyrir því er sú að flestir þeirra koma frá höfuðborgarsvæðinu. Einnig eru þeir formannslausir og enginn þeirra fær því sérstakt formannsálag í stjórnarandstöðu. Píratar eiga tvo ódýrustu þingmennina, þá Helga Hrafn Gunnarsson og Björn Leví Gunnarsson.

Viðreisn er með lægstan heildarkostnað þingflokka, aðeins tæplega 39 milljónir. Þau eru aðeins fjögur talsins. Eftir kosningarnar árið 2017 missti flokkurinn alla landsbyggðarþingmenn sína en hélt stöðu sinni ágætlega á höfuðborgarsvæðinu. Formaðurinn, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hífir meðaltalið hins vegar þónokkuð upp.

Flokkur fólksins er einnig aðeins fjögurra þingmanna flokkur en þingmennirnir dreifast nokkuð jafn yfir heildarlistann. Formaðurinn, Inga Sæland, er í dýrari kantinum en Guðmundur Ingi Kristinsson er með þeim ódýrustu. Miðflokkurinn er merkilega lágur þrátt fyrir sterka stöðu á landsbyggðinni og eru allir þingmenn flokksins á svipuðum slóðum á listanum fyrir utan formanninn, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

 

Stjórn og stjórnarandstaða

Ríkisstjórn – 420.276.633 kr. (11.674.350 að meðaltali)

Stjórnarandstaða – 286.506.318 kr. (10.323.368)

Munurinn á stjórnarþingmanni og stjórnarandstöðuþingmanni er um 1,3 milljónir á þessum sjö mánuðum sem Alþingi hefur gefið út tölur fyrir. Skipta laun ellefu ráðherra þar miklu og auk þess verður að hafa í huga að Vinstri græn skipuðu umhverfisráðherrann, Guðmund Inga Guðbrandsson, en hann er ekki kjörinn alþingismaður. Laun hans eru því viðbótarkostnaður sem ellegar hefði ekki verið til staðar. Einnig verður að hafa í huga að allir stjórnarflokkarnir þrír eru með sterka stöðu á landsbyggðinni á meðan andstöðuflokkarnir eru heilt yfir sterkari á höfuðborgarsvæðinu.

 

Stjórnmálaskoðanir

Hægrimenn – 220.874.063 kr. (11.043.703 að meðaltali)

Miðjumenn – 214.493.855 kr. (11.289.150)

Vinstrimenn – 271.415.033 kr. (10.856.601)

Ef þingheimi er skipt niður í blokkir kemur í ljós að mjög lítill munur er á milli þeirra. Sjálfstæðismenn og Viðreisn eru til hægri, Framsóknarflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins í miðjunni og Samfylkingin, Vinstri græn og Píratar mynda vinstri blokkina.

 

Kynin

Karlar – 424.172.584 kr. (10.604.314 að meðaltali)

Konur – 282.610.367 kr. (11.775.431)

Kosningarnar haustið 2017 voru taldar mikið bakslag í kvenréttindabaráttunni en þá fækkaði konum á Alþingi úr 30 niður í 24. Körlum fjölgaði hins vegar úr 33 í 39 og í þessum tölum er einnig talinn með karlkyns utanþingsráðherra. Engu að síður eru þingkonur umtalsvert launahærri en starfsbræður þeirra og er munurinn rúmlega 1,1 milljón á sjö mánaða tímabili. Hluti af því er til kominn vegna þess að fimm af ellefu ráðherrum eru konur, sem er hlutfallslega hærra hlutfall en hjá karlpeningnum, og fimm af átta þingflokksformönnum eru konur. Af tuttugu ódýrustu þingmönnunum eru aðeins þrjár konur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”