Benedikt Jóhannsson, stofnandi Viðreisnar og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, segir að sá sem hafi ákveðið að endurbirta blogg Halldórs Jónssonar í Staksteinum sé jafn ógeðslegur gamall karl og Halldór. Má leiða að því líkum að þar eigi hann við Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins.
Sjá einnig: Morgunblaðið birtir orð Halldórs sem varði Downey: „Rétttrúnaður að mega ekki troða sér í sleik við konur“
Halldór, sem þykir gífurlega umdeildur, beindi sjónum sínum að kynferðislegri áreitni og þá sérstaklega í samhengi við mál Orkuveitu Reykjavíkur. Hann bar svo saman dansæfingar í MR við nauðgunarmál í Bandaríkjunum.
Sjá einnig: Halldór Auðar hvetur fólk til að segja upp áskrift að Morgunblaðinu samstundis
Benedikt segir á Facebook að sér hafi einfaldlega orðið óglatt við að lesa skrifin sem birtust í Morgunblaðinu í dag. „Enn einn dagur þar sem ég sé eftir að vera búinn að segja upp Mogganum. Þá get ég ekki gert það í dag. Mér varð bókstaflega óglatt að lesa um þetta. Tveir ógeðslegir gamlir karlar sleikja botninn á mykjuhaugnum, annar með því að halda að það sé sniðugt að skrifa svona, hinn með því að halda að það sé sniðugt að birta svona skrif.“