Það er mörgum enn í fersku minni þegar eitt mesta aflaskip vestfjarða, Guðbjörgin ÍS, var seld Þorsteini Má Baldvinssyni í Samherja árið 1997. Fyrrum alþingismaðurinn Kristinn H. Gunnarsson rifjar upp á heimasíðu sinni þegar Þorsteinn Már lofaði ísfirðingum því að útgerðin yrði áfram á Ísafirði. Og ekki nóg með það, heldur yrði hún áfram gul að lit og héldi nafninu ÍS, en þau loforð voru öll á endanum svikin.
Kristinn birtir skjal á síðu sinni, með undirskriftum Þorsteins Más og Ásgeirs Guðbjartssonar, skipstjóra Guðbjargarinnar og eiganda Hrannar, útgerðarfélagsins sem átti og rak Guðbjörgina, þar sem fram kemur að útgerðin verði áfram með sama hætti. Þar segir orðrétt:
„Fréttatilkynning. Hluthafar Samherja h.f. Akureyri og Hrannar h.h. Ísafirði hafa undirritað samkomulag um að sameina þessi sjávarútvegsfyrirtæki. Samkomulag er um að útgerð Guðbjargar ÍS verði óbreytt frá því sem verið hefur á Ísafirði.“
Árið 1999 var Guðbjörgin seld til Þýskalands. Í fréttum frá þessum tíma var talað um að munnlegt samkomulag hefði verið gert um að útgerðin yrði áfram á Ísafirði, en nú hefur hið skriflega loforð skotið upp kollinum.
Um þetta segir Kristinn:
„Nú hefur fengist staðfest það sem Ásgeir heitinn Guðbjartsson hélt fram á sínum tíma, að Þorsteinn Már gaf eigendum Hrannar hf loforð um óbreytta útgerðarhætti og það sem meira er að loforðið er skriflegt. Skjalið er enn til og birtist hér afrit af því. Þorsteinn Már Baldvinsson gerði meira en að ganga á bak orða sinna, hann vanefndi skriflega yfirlýsingu sína.“
Þá rifjar Kristinn upp aðkomu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegsráðherra, að málinu:
„Núverandi sjávarútvegsráðherra er málið skylt. Hann var þá stjórnarformaður Samherja og jafnframt bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ. Sú staða átti drjúgan þátt í því að fá Ísfirðinga til þess að treysta nýjum eigendum og yfirlýsingum þeirra. Áður en árið 1997 var liðið var Kristján Þór skyndilega horfinn úr stól bæjarstjóra og farinn norður, þar sem honum skaut upp í byrjun árs 1998 sem frambjóðandi og bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar um vorið. Nú getur hann beitt sér fyrir úrbótum til þess að bæta Ísfirðingunum skaðann – ef hann vill.“
Þegar Þorsteinn Már seldi „Gugguna“ bar hann því við að fyrirtækið hefði þurft að mæta þeim breytingum sem hefðu átt sér stað í sjávarútvegi. Síðar viðurkenndi hann að sú yfirlýsing hefði verið mistök.
Þá sagði hann við Morgunblaðið að ekki hafi verið um „bindandi loforð“ hafi verið að ræða, aðspurður hvort hann hafi verið að taka tillit til byggðarsjónarmiða:
„Ég bara sagði þetta og það hafði ekkert með pólitík eða bæjarstjórn að gera.“
Halldór Halldórsson, þáverandi bæjarstjóri á Ísafirði, sagði árið 1999 að enginn skriflegur samningur hefði legið fyrir um nefnt loforð, að honum vitandi:
„Ég var nú ekki orðinn bæjarstjóri þegar þessi kaup fóru fram, en þarna var um að ræða samkomulag milli eigenda Hrannar og Samherja. Þeir gáfu þá yfirlýsingu á fundi með fulltrúa bæjarstjórnar á sínum tíma, og það kom í heimafjölmiðlum að engin breyting yrði. Guðbjörgin yrði áfram Guðbjörgin og gerð út frá Ísafirði, eða eins og þeir sögðu: „Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði.“ Það gleymdist að taka það fram að hún myndi heita Hannover, gerð út frá Þýskalandi og yrði lengd um 18 metra. Samherjamenn áttu þó ekki að gefa þessa yfirlýsingu. Þeir vissu að þeir myndu ekki standa við hana. En ef það er eitthvert persónuleikaeinkenni á þeim, að standa ekki við yfirlýsingar, er það bara þeirra vandamál,“
sagði Halldór þá.