Skafti Harðarson, framkvæmdarstjóri, leiðir nýtt framboð á Seltjarnarnesi í komandi sveitastjórnarkosningum. Framboðið heitir Fyrir Seltjarnarnes og hefur fengið listabókstafinn F. Listann skipar fólk sem lengi hefur fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum, en sjálfur er Skafti einn af stofnendum Félags frjálshyggjumanna, fyrrum stjórnarmaður í Heimdalli og Vöku. Þá er Skafti formaður Samtaka skattgreiðenda.
Í tilkynningu segir að stjórnendur bæjarfélagsins hafi misst sjónar á því grundvallaratriði að Seltjarnarnesið sé náttúruperla þar sem öll skilyrði séu fyrir friðsælu mannlífi. Þá sé ráðdeild og sparnaður liðin tíð og bærinn sé rekinn með tapi, í miðju góðæri.
Núverandi meirihluti er sagður sækja sér fyrirmynd til vinstrimeirihluta Dags B. Eggertssonar sem leggi áherslu á gæluverkefni á kostnað grunnþjónustu við bæjarbúa.
Tilkynninguna má lesa hér:
SELTJARNARNES – RÁÐDEILD Í REKSTRI, EINSTAKLINGINN Í ÖNDVEGI
Seltjarnarnesið er náttúruperla og þar eru öll skilyrði fyrir friðsælu mannlífi þar sem hagsmunir bæjarbúa sitja í fyrirrúmi. Á síðari árum hafa stjórnendur bæjarfélagsins misst sjónar af þessum grundvallaratriðum. Þeir vilja meðal annars ganga enn frekar á grænu svæðin með of fyrirferðarmikilli byggð.
En fleira hefur farið aflaga. Sú var tíð að Seltirningar greiddu lægstu skatta á landinu. Ráðdeild og sparnaður voru einkunnarorð stjórnenda bæjarfélagsins. Þetta er því miður liðin tíð og í miðju góðæri er bærinn rekinn með tapi. Óráðsíða í rekstri hefur meðal annars birst í kaupum á gömlu húsi fyrir hundrað milljónir króna. Skýr markmið liggja ekki fyrir um notkun þess svo hér er um að ræða ferð án fyrirheits.
Þá var nýverið reist stórt áhaldahús á útivistarsvæði bæjarins án tilskilinna fjárheimilda. Hér eru aðeins nefnd tvö dæmi af mörgum um bruðlið. Núverandi meirihluti bæjarstjórnar Seltjarnarness sækir sér fyrirmyndir í stjórnmálum til vinstrimeirihluta Dags B. Eggertssonar og leggur því áherslu á dýr gæluverkefni á kostnað grunnþjónustu við bæjarbúa. Minnihlutinn lætur sér þetta að vonum vel líka.
Á sama tíma og viðhaldi skólabygginga er illa sinnt og almennri umhirðu ábótavant er fjármunum skattgreiðenda sólundað í óþarfa. Þessu viljum við breyta, greiða niður skuldir bæjarsjóðs, lækka skatta, en um leið vernda náttúru Seltjarnarness, bæta þjónustu við bæjarbúa og fegra umhverfið.
F-listann skipar fjölbreyttur hópur frjálslyndra Seltirninga sem margir hafa búið á Nesinu áratugi og bera hag síns heimabæjar mjög fyrir brjósti. Margir sem að listanum standa eiga að baki áratugalanga reynslu úr atvinnulífinu. Sú þekking mun nýtast vel til að tryggja aðhald, lága skatta, minni yfirbyggingu og forgangsröðun í þágu þess sem mestu skiptir.
Listann skipa:
Skafti Harðarson
framkvæmdastjóri
Ástríður Sigurrós Jónsdóttir
viðskiptafræðingur
Ásgeir Bjarnason
viðskiptafræðingur
Guðrún Erla Sigurðardóttir
framkvæmdastjóri
Ragnar Árnason prófessor
Eyjólfur Sigurðsson forstjóri
María J. Hauksdóttir mannfræðingur
Guðjón Jónatansson verkefna- og vöruþróunarstj.
Elínborg Friðriksdóttir markaðsstjóri
Guðrún Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Arnar Sigurðsson fjárfestir
Þuríður V. Eiríksdóttir sölustjóri
Kristín Ólafsdóttir starfsm. safnaðarheimilis
Helgi Þórðarson framhaldsskólakennari