Örn Sigurðsson, arkitekt og fyrrverandi félagi í Sjálfstæðisflokknum, segi að sér hafi verið ógnað á landsfundi flokksins fyrir að tala með því að Reykjavíkurflugvöllur hyrfi úr Vatnsmýrinni. Þetta kemur fram í grein Arnar í Morgunblaðinu í dag, þar sem segir:
„Þá risu landsbyggðarfulltrúar, meirihluti landsfundarfulltrúa, úr sætum og þokuðust ógnandi nær sviðinu í Laugardalshöll.
Þáverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins bjargaði flutningsmanni úr pontu og krafðist þess að fallið yrði frá tillögunni því flokksstjórn tæki málið til umfjöllunar. Það gerðist að sjálfsögðu ekki og í kjölfarið gekk greinarhöfundur úr flokknum.“
Atvikið átti sér stað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2001. Örn er í dag stjórnarmaður í Samtökum um betri byggð. Í grein sinni heldur Örn því fram að skipulag starfsemi flokksins leiði til þess að landsbyggðarfulltrúar séu áhrifameiri á landsfundi flokksins en sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu. Leiði þetta til þess að stefna flokksins verði íhaldssamari og „heimóttarlegri“, til dæmis í Evrópumálum. Örn skrifar jafnframt:
„Landsbyggðaröfl ráða því öllu um stefnumótun á landsfundum þótt 65% atkvæða flokksins falli að jafnaði á höfuðborgarsvæðinu. Ákvarðanir landsfunda eru bindandi fyrir ríkisstjórnir, þingmenn og borgarfulltrúa flokksins.“
Í lok greinar sinnar hvetur Örn kjósendur Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu til að gefa flokknum frí „uns tekist hefur að ráða bót á umræddum kerfisgalla.“