fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2024
Eyjan

Sigursteinn Másson um fyrirhugaðar hvalveiðar: „Þessi ákvörðun mun hafa allskonar afleiðingar, fyrir utan hversu fáránlegt þetta er“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 17. apríl 2018 14:32

Sigursteinn Másson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkt og greint var frá í dag hyggst Kristján Loftsson, framkvæmdarstjóri Hvals hf. hefja hvalveiðar á ný í sumar. Er tilgangurinn að nýta afurðina til handa fólki sem þjáist af blóðleysi, í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóla Íslands.

Sigursteinn Másson, sem er fulltrúi Alþjóða dýravelferðarsjóðsins, segir fátt geta skýrt þessa ákvörðun Kristjáns Loftssonar, annað en það að Kristján sé með þessu að framlengja kvótaheimildum til fyrirtækis síns:

„Fimm ára hvalveiði-kvótatímabili lýkur á þessu ári. Það sem kann að vaka fyrir Kristjáni með þessu er að eiga möguleika á að fá nýjan kvóta á næsta ári og næstu árum, því ef hann nýtir ekki kvótann sinn þrjú ár í röð, er staða hans ansi veik fari hann fram á úthlutun frekari kvóta eftir það. Þetta virðist vera eina rökrétta niðurstaðan sem hægt er að finna fyrir þessari ákvörðun, því hún er annars í rauninni bara hlægileg.“

Skýringin á hvalveiðunum nú er sögð vera sú að Kristján Loftsson geri sér vonir um að Japan dragi úr innflutningshindrunum sínum og  að Hvalur hf. sé að vinna að rannsóknum til að nýta járnríkt fæðubótarefni úr hvalnum er nýtist fólki sem þjáist af blóðleysi. Sigursteinn segir það fásinnu:

„Þetta minnir mig á umræðu fyrir nokkrum árum sem ég tók þátt í, sem snerist um að hvalkjöt gæti verið lausn á öllum hungurvandamálum heimsins til framtíðar. Núna er þessi hugmynd um fæðubótaefni viðruð í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð og Háskóla Íslands, sem er fyrirfram vonlaus og sem vekur upp spurningar hver borgi brúsann. Því staðreyndin eftir sem áður er sú, að allar afurðir sem koma frá þessum dýrum eru bannaðar samkvæmt Cites-samningnum, sem Ísland er aðili að og varðar okkur miklu að farið sé eftir. Aðeins Japan og Noregur leyfa sölu á þessum afurðum, háð skilyrðum. En nú er kvótinn stærri en oft áður, hátt í 200 dýr, sem eru um 1500 tonn. Það tæki áratugi, jafnvel árhundruð að koma 1500 tonnum af hvalkjöti ofan í þessar þjóðir, “

segir Sigursteinn.

Cites-samningurinn gildir um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu sem ísland gerðist aðili að árið 2000. Kvótinn fyrir langreyð er á þessu ári 161 dýr, auk þess sem nýta má 20% af ónýttum kvóta síðasta árs.

Kristján Loftsson sagði árið 2015 að sterkt gengi krónunnar væri ein ástæða þess að hvalveiðum var hætt, sem og úreltar rannsóknaraðferðir Japana við efnagreiningu. Sigursteinn segir að engar forsendur hafi breyst á þessum tveimur árum og allra síst afstaða Bandaríkjanna:

„Japansmarkaður hefur ekkert opnast frekar á þessum tíma. Gengið er ennþá sterkt og Noregur hefur bara verið  í hrefnukjötinu. Aðeins Rússland og Noregur leyfa að siglt sé um þeirra lögsögu með þessa afurð. Þá hefur afstaða Bandaríkjanna ekkert breyst heldur. Pelly-ákvæðinu sem Obama staðfesti gagnvart Íslandi hefur ekki verið aflétt, þó svo íslensk stjórnvöld hafi reynt það, því það kveður á um diplómatískar refsiaðgerðir sem setur Ísland á stall með Norður-Kóreu hvað varðar diplómatísk samskipti. Og þegar fréttir berast af þessari ákvörðun Kristjáns Loftssonar, þá kallar það bara á enn frekari vandræði í alþjóðasamskiptum Íslands. Auk þess þá erum við með viðkvæma útflutningsmarkaði, eins og til dæmis lambakjöt. Þetta mun ekki hjálpa til þar. Þessi ákvörðun mun hafa allskonar afleiðingar, fyrir utan hversu fáránlegt þetta er. Kristján er eini maðurinn í heiminum sem lætur sér detta þetta í hug, að standa í svona veiðum og illu heilli dregur hann þjóðina niður með sér.“

Árið 2014 gagnrýndi Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, langreyðaveiðar Íslands harðlega í minnisblaði til bandaríska þingsins, þar sem hvatt var til þess að Ísland hætti hvalveiðum og snúi sér að hvalaskoðun alfarið. Þá vildi hann endurskoða tvíhliða samstarf þjóðanna í framhaldinu vegna málsins og að samskipti ríkjanna ættu að miða að því að fá Ísland til að hlíta ályktunum Alþjóðahvalveiðiráðsins um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni. Þá átti einnig að endurmeta hvort við hæfi væri að ráðherrar Bandaríkjastjórnar heimsóttu Ísland.

Meira um Pelly-ákvæðið

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dagfari: Látum ekki koma fram við okkur eins og búfénað – eini ómöguleikinn er þegar þingið hlýðir ekki þjóðinni

Dagfari: Látum ekki koma fram við okkur eins og búfénað – eini ómöguleikinn er þegar þingið hlýðir ekki þjóðinni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur hæðist að Sigmundi og upphlaupi hans í gær – „Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar“

Hildur hæðist að Sigmundi og upphlaupi hans í gær – „Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar“