Spennan er farin að magnast vegna borgarstjórnarkosninganna sem verða eftir sex vikur. Fréttablaðið birtir skoðanakönnun í morgun og er því slegið upp að 40 prósent borgarbúa séu óánægð með Dag B. Eggertsson. Innan Samfylkingarinnar er lítil gleði með það hvernig skoðanakönnunin er sett upp á forsíðu blaðsins.
Dagur sjálfur skrifar á Facebook og kvartar undan framsetningu Fréttablaðsins:
Það verður að teljast nokkuð magnað fréttamat hjá Fréttablaðinu að slá því upp að kjósendur Sjálfstæðisflokks og Vigdísar Hauksdóttur séu ekki ánægðir með mig í embætti en geta þess aðeins í framhjáhlaupi að 45% borgarbúa segist vilja að ég verði næsti borgarstjóri í Reykjavík. Það er ekki aðeins afgerandi mesti stuðningur nokkurs borgarstjóraefnis heldur jafnframt um 50% meiri stuðningur en mælist við Samfylkinguna. Samfylkingin hefur reyndar meira en tvöfaldað fylgi sitt frá því í haust, skv. könnunum Fréttablaðsins í vetur en það hefur reyndar heldur ekki komið fram í blaðinu sem vísar þess í stað iðulega til úrslita síðustu kosninga. Ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með niðurstöður þessara kannana og innilega þakklátur fyrir stuðninginn. Það er frábært að hafa svona byr í seglum þrátt fyrir þá ótrúlegu neikvæðni sem haldið er að fólki á síðum Morgunblaðsins – já, og annarra. Og svo það sé nefnt þá að það hreint algjör óþarfi af Fréttablaðinu að birta af mér mynd sem lítur út einsog ég hafi misst náin ástvin. Ég er í toppformi og góðu stuði en sýnist á öllum sólarmerkjum að þið, góðu vinir, og annað gott fólk þurfið að leggjast á árarnar með okkur og tala okkar máli. Læt þessa dásamlegu mynd Fréttablaðsins fylgja.
Fréttablaðið er geysilega áhrifamikill fjölmiðill, er borinn ókeypis inn í hvert hús í borginni. Stuðningsmenn borgarstjórnarmeirihlutans hafa af því áhyggjur að það hafi áhrif að tengdadóttir Kristínar Þorsteinsdóttur ritstjóra er í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. En það verður líka að segjast eins og er að í leiðurum hefur Kristín hingað til verðið frekar höll undir stefnumál meirihlutans varðandi borgarskipulag.
Önnur uppákoma er fundur Eyþórs Arnalds og Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, oddvita Pírata. Eyþór ætlaði, eins og gengur, að kanna hvort væru einhverjir fletir á samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Pírata í borginni. Varla er neitt óeðlilegt við það. En Píratar eru harðir á þetta geti ekki orðið og strax eftir fundinn gaf Dóra Björt út yfirlýsingu sem birtist í Stundinni. Pírötum lá svo mikið að koma þessu á framfæri að dreifing þessarar fréttar var sérstaklega kostuð á Facebook.
Kannski hefði verið nær að hitta Eyþór alls ekki? Einn Fésbókarlimur talar um machiavellísk vinnubrögð hjá Pírötum – og svo er spurt hvort þetta sé rýtingur sem standi upp úr bakinu á Eyþóri á myndinni.