Norræn stjórnvöld ættu að auka samstarf landanna á sviði netvarna og þá einnig við Eystrasaltsríkin. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs samþykkti á fundi sínum á mánudaginn að beina þessum tilmælum til ríkisstjórnanna á grundvelli tillögu flokkahóps hægrimanna í ráðinu. Rökin fyrir tillögunni eru þær alvarlegu netárásir sem beint er gegn Norðurlöndum á degi hverjum og sem geta skaðað gangverk samfélagsins.
„Vægi þessa málefnis eykst því miður með degi hverjum á öllum Norðurlöndunum,“ segir Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs. Norðurlönd eru það svæði í heiminum þar sem stafræn væðing er hvað lengst á veg komin og sama á við um Eystrasaltsríkin. Eistland sér í lagi hefur náð hvað lengst á sviði netöryggis en öndvegissetur NATO um netvarnir, Cyber Defence Centre of Excellence, er staðsett í Tallinn. Því leggur beint við að Norðurlönd leiti samstarfs við Eistland, Lettland og Litáen um netvarnir.
„Netógnin er sannarlega sameiginlegt viðfangsefni fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin,“
segir Michael Tetzschner. Hann bendir á að ógninni megi meðal annars mæta með því að löndin skiptist stöðugt á upplýsingum um stöðuna varðandi ógnir og hættur í netheimum.
Dýpka ætti samstarfið sem þegar er fyrir hendi um netvarnir innan vébanda NORDEFCO samkvæmt tillögunni. Þar er einnig bent á að samstarf um netvarnir við Bandaríkin og Evrópusambandið gæti orðið sameiginlegt verkefni landanna.
Flokkahópur vinstri grænna studdi ekki tillöguna.
Tillaga Norðurlandaráðs er í samræmi við aðgerðaáætlun um aukið netsamstarf sem Eystrasaltsríkjaþingið og Norðurlandaráð sömdu um í nóvember 2017.