Boðuð er stofnun nýs kvennaframboðs fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Þetta er athyglisvert, það hljóta nefnilega að vera málefni og málefnaágreiningur sem ráða för fremur en óánægja með hlutfall kvenna í borgarstjórninni.
Því ef fer sem horfir verða konur í miklum meirihluta í borgarstjórn eftir kosningarnar í lok maí. Nú eru 8 konur i borgarstjórninni á móti 7 körlum. Í kosningunum mun borgarfulltrúum fjölga úr 15 í 23.
Gallup gerði könnun á fylgi flokka og var hún birt á RÚV í fyrradag.
Séu niðurstöðurnar bornar saman við framboðslista myndu 15 konur og 8 karlar verða í borgarstjórninni á næsta kjörtímabili. Fjöldi karlanna stendur nánast í stað, en konunum snarfjölgar. Þannig er útlit fyrir að verði 4 konur frá Samfylkingu, 4 frá Sjálfstæðisflokki, 3 frá Pírötum, 2 frá Vinstri grænum, 1 frá Viðreisn og 1 kona frá Miðflokki. Þetta getur auðvitað breyst eitthvað, en þó virðist ljóst að konur verða í talsverðum meirihluta í borgarstjórn eftir kosningarnar. Flokkur fólksins er næstur því að ná frambjóðanda inn, þar er lika kona í efsta sæti.