Það fer ekki framhjá neinum sem fylgist með stjórnmálum um þessar mundir hversu mikill samhljómur er á milli Miðflokksins, Flokks fólksins og ákveðinna afla innan Sjálfstæðisflokksins. Þarna er fólk sem líklega hefði unað sér vel saman í ríkisstjórn. Manni virðist líka að í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík sé einboðið að þessir flokkar vinni saman – skipi meirihluta ef þeir ná því undir forystu Eyþórs Arnalds.
Í dag er tilkynnt um þingsályktun sem er lögð fram af öllum þingmönnum Miðflokksins, tveimur þingmönnum Flokks fólksins og þeim Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Brynjari Níelssyni, Óla Birni Kárasyni, Haraldi Benediktssyni, Páli Magnússyni og Vilhjálmi Árnasyni úr Sjálfstæðisflokki.
Efni hennar er að Alþingi álykti að rangt hafi verið að höfða mál gegn ráðherrum eftir hrun og eru færð rök fyrir því. Er svo mælt fyrir um að Alþingi biðji téða ráðherra afsökunar.
Þetta snýst semsé um réttarhöldin yfir Geir H. Haarde. Þau hafa lengi verði umdeild, en benda má á að sjálfur Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um þessa málsmeðferð og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi verið athugavert við hana. Því má svo bæta við að lög um Landsdóm eru enn í gildi þrátt fyrir þessa reynslu.
En það er pólitíska hliðin á þessu sem er athygli verð. Sjálfstæðismenn sitja nú í ríkisstjórn með Vinstri grænum sem voru í stjórn á tímanum þegar Geir var stillt upp fyrir Landsdómi. Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru öll ráðherrar, Katrín er nú forsætisráðherra, Steingrímur forseti Alþingis. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, greiddi reyndar líka atkvæði með Landsdómi á sínum tíma sem og Ásmundur Einar Daðason.
Fyrir ríkisstjórnina gæti þetta semsagt reynst nokkuð snúið og nokkuð erfitt að sjá hvernig þetta verður afgreitt.