Um daginn setti ég hérna inn lítinn pistil þar sem ég benti á grein þar sem Bashir al-Assad Sýrlandsforseti var kallaður „geðþekkur augnlæknir“.
Ég tek fram að þetta var ekki í gríni heldur í fúlustu alvöru.
Úr ekki alveg ólíkri átt kemur grein sem Haukur Hauksson skrifar í Morgunblaðið í dag, „lýðræðislegasta fjölmiðil“ Íslands, líkt og hann kallar það. Þar er að finna þessi orð um Vladimir Pútín Rússlandsforseta:
Hann ber mikla virðingu fyrir þýskri menningu og talar þýsku reiprennandi, leggur áherslu á frið og að menn tali saman. Pútín hefur mjög heilbrigðar neysluvenjur, hann er með topplögfræðipróf og vinnur 14 klst. á sólarhring, það er varla til sú íþrótt sem hann er ekki nokkuð góður í, hann fór úr hnefaleikum í hina göfugu japönsku íþrótt júdó, þar sem hann er með hæsta dan og svarta beltið, heilbrigð sál í hraustum líkama.