Stjórn Pírata á Suðurnesjum, ásamt frambjóðendum Pírata í Reykjanesbæ, lýsa stuðningi sínum við ljósmæður í yfirstandandi kjaradeilu þeirra, en birt var yfirlýsing þess efnis á facebooksíðu Pírata á Suðurnesjum í gær.
„Stjórn Pírata á Suðurnesjum og frambjóðendur Pírata í Reykjanesbæ lýsa yfir stuðningi við ljósmæður í kjaradeilu þeirra. Ljósmæður eru nauðsynlegar í okkar samfélagi og vinna eitt af mikilvægustu störfum landsins sem er að taka á móti nýjum Íslendingum. Það er með öllu óásættanlegt að þeir hjúkrunarfræðingar sem mennta sig sem ljósmæður, með vaxandi ábyrgð og auknum tilkostnaði, lækki í launum, þetta þarf að leiðrétta strax.“
Þá gagnrýna Píratar heilbrigðisráðherra fyrir að ekki sé boðið upp á fæðingarþjónustu í Reykjanesbæ:
„Einnig vill stjórn Pírata á Suðurnesjum og frambjóðendur Pírata í Reykjanesbæ koma því á framfæri við hæstvirtan heilbrigðisráðherra að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur ekki verið gert kleift að bjóða upp á þá þjónustu sem þarf til þess að allir íbúar í Reykjanesbæ geti átt sín börn í heimabyggð sem telur nú yfir 18 þúsund íbúa. Undanfarin ár hefur fæðingarþjónustu Ljósmæðravaktar verið lokað vikum saman yfir sumartímann og ekki hefur verið starfandi kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir þar í fullu starfi til lengri tíma. Þessi þjónustuskerðing er óásættanleg á svona fjölmennu svæði sem nær yfir öll Suðurnesin, þar sem íbúafjölgun hefur verið gríðarleg á undanförnum árum.“