fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Eyjan

Samstarf um Sundabraut

Trausti Salvar Kristjánsson
Þriðjudaginn 3. apríl 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykvíkingar hafa haft Sundabraut til umræðu í áratugi, enda um mikla samgöngubót að
ræða. Tilgangur Sundabrautar er margþættur og margumræddur en hún er m.a. talin hafa
mikilvægu hlutveki að gegna í þróun byggðar á suðvesturhorni landsins og er forsenda
uppbyggingar í Gufunesi og Geldingarnesi.
Sundabraut er talin hafa mikla þýðingu fyrir samgöngur á landsvísu og hefur verið skilgreind
sem þjóðvegur í þéttbýli, en því fylgir að kostnaður við gerð hennar mun greiðast úr ríkissjóði.
Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafa unnið að þessu verkefni í sameiningu frá árinu 1995 í
ljósi þess að borgin fer með skipulagsvald á því svæði sem brautinni er ætlað að liggja. Í
gegnum tíðina hafa komið upp ýmsar hugmyndir að leiðarvali en á síðustu árum hefur
aðallega verið þrætt um tvo kosti, innri leið (leið III) og ytri leið (leið I).

Báðar leiðir hafa verið taldar leysa meginhlutverk Sundabrautar sambærilega en
kostnaðaráætlanir sýndu að ytri leiðin var um 50% dýrari en innri leiðin. Á þeim forsendum
gerði Vegagerðin innri leiðina að tillögu sinni á sínum tíma. Þá er vert að benda á að
skipulagsfræðingar hafa á síðari árum tekið undir tillögu Vegagerðarinnar á þeim forsendum
að stefna innri leiðar Sundabrautar sé betur í takt við þróun samgönguáss
höfuðborgarsvæðisins.

 

Samstarfi slitið

Reykjavíkurborg sló hins vegar innri leiðina, að því er virðist einhliða út af borðinu við útgáfu
aðalskipulags Reykjavíkurborgar 2010-2030. Í nýju skipulagi er einungis gert ráð fyrir ytri
leið Sundabrautar en í vegstæði innri leiðar áætluð íbúabyggð. Við þessa tilhögun skipulags
gerði Vegagerðin ítrekaðar athugasemdir, með hliðsjón af 2. mgr. 28. gr. Vegalaga nr.
80/2007 en þar segir að lega þjóðvega í skipulagi skuli ákveðin að fenginni tillögu
Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Er þar jafnframt
tekið fram að fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstutt sérstaklega.
Af viðbrögðum Vegagerðarinnar í framhaldinu að dæma má draga þá ályktun að hún telji
Reykjavíkurborg ekki hafa gætt að þessu þegar innri leið var hafnað með nýju skipulagi.
Steininn virðist loks hafa tekið úr í fyrra þegar Reykjavíkurborg undirritaði samning um
uppbyggingu íbúða á Gelgjutanga, en sú uppbygging mun að óbreyttu koma varanlega í veg
fyrir innri leið Sundabrautar. Hreinn Haraldsson vegarmálastjóri sendi Reykjavíkurborg í
kjölfarið bréf þar sem enn og aftur var vakin athygli borgarinnar á fyrrgreindri 2. mgr. 28. gr.
Vegalaga. Þá benti hann einnig sérstaklega á 3. mgr. sama ákvæðis sem hljóðar svo:
„Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá sem
Vegagerðin telur betri með tilliti til kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það
leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um
kostnaðarmuninn.“

Ágreiningur milli ríkis og borgar
Vegagerðinni hefur verið falið það hlutverk að vinna að þróun og endurbótum á vegakerfinu
með gerð áætlana um nýjar framkvæmdir eftir því sem almannahagsmunir og þarfir
samfélagsins krefjast. Almennt er viðurkennt að ákvörðun um vegstæði þjóðvega sé ekki
einkamál, hvorki einstaklinga né einstakra sveitarfélaga. Af þeim sökum hafa bæði ríki og
sveitarfélög ýmis þvingunarúrræði til þess að ná bestu útkomunni við lagningu vega, með
almannahag að leiðarljósi. Fyrrgreint og tilvitnað ákvæði vegalaga er eitt þeirra.
Sú staða er því upp komin að Vegagerðin lítur svo á að Reykjavíkurborg eigi að fjármagna
þann umfram kostnað sem til fellur vegna vals borgarinnar á dýrari leiðinni. Hér er um
gríðarlegar fjárhæðir að ræða, því þó fyrri áætlanir hafi ekki verið unnar upp frá grunni gerir
Vegagerðin ráð fyrir hér um bil 10 milljarða mun milli leiða, að núvirði.

Sáttarhönd Framsóknar
Ágreiningur um greiðslu umframkostnaðar er í okkar huga ekki stóra málið, þó það sé að
sjálfsögðu stórmál fyrir íbúa Reykjavíkur ef 10 milljarða krafa verður stíluð á þá eina. Stóra
málið er það að sérfræðingar Vegagerðarinnar gerðu innri leiðina að tillögu sinni, eftir ítarlega
úttekt. Sú leið varð fyrir valinu með hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi og okkur
stjórnmálamönnum ber að taka mark á því.

Það hæfir ekki höfuðborg landsins að standa í deilum við ríkið sjálft. Við viljum vera til
fyrirmyndar og með hagsmuni almennings að leiðarljósi ganga aftur til samstarfs við
Vegagerðina við val á þeirri leið sem Sundabraut verði mörkuð um ókomna tíð.
Sé það enn tillaga Vegagerðarinnar, að undangenginni nýrri úttekt og kostnaðarmati að innri
leiðin sé betri, erum við tilbúin til þess að viðurkenna að lóðaúthlutun á Gelgjutanga hafi
verið mistök og skoða hvort ekki borgi sig að vinda ofan af þeim. Fyrsta skrefið í þá átt væri
að ganga til samninga við lóðahafa með það að markmiði að greiða aftur innri leið
Sundabrautar. Við viljum leita sátta og velja þá leið sem verður hagkvæmust fyrir okkur öll,
Reykvíkinga sem og aðra landsmenn.

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Að vera sinn eigin böðull

Steinunn Ólína skrifar: Að vera sinn eigin böðull
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Enginn heimsendir þótt Framsókn sé í rusli – er Guðni Ágústsson ekki fósturlandsins Freyja?

Orðið á götunni: Enginn heimsendir þótt Framsókn sé í rusli – er Guðni Ágústsson ekki fósturlandsins Freyja?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Íris ráðin framkvæmdastjóri samstarfs hjá Klöppum

Íris ráðin framkvæmdastjóri samstarfs hjá Klöppum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

700 milljón króna jákvæður viðsnúningur Hofgarða – DV og miðlar Fjölmiðlatorgsins reknir með hagnaði

700 milljón króna jákvæður viðsnúningur Hofgarða – DV og miðlar Fjölmiðlatorgsins reknir með hagnaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni