Gleðilega páska!
Myndin er tekin á eyjunni Folegandros í Eyjahafinu gríska. Hún sýnir helstu kirkju eyjarinnar sem stendur efst við klettabrún. Kirkjan er kennd við Panagia, en það er eitt nafn guðsmóður í orþódox kristni, þýðir allra heilagasta.
Og máninn úti við sjónarrönd. Óvíða er meiri tunglfengurð en í þessum heimshluta.
Páskarnir í Grikklandi eru reyndar ekki fyrr en eftir viku, hvað það varðar fylgja þeir öðru tímatali en við. En páskarnir eru aðalhátíðin þar í landi, miklu stærri en jólin. Það eru haldnar miklar veislur, lömb eru grilluð heil, jafnvel skotið upp flugeldum, og fólk heilsast með kveðjunni Χριστός ἀνέστη! (Kristos anesti, Kristur er upp risinn) og þá er svarað Ἀληθῶς ἀνέστη! (Aliþos anesti, svo sannarlega er hann upp risinn).
Í kirkjunni er fræg helgimynd, íkon, og það er venja á páskum að fara um eyjuna með myndina. Hér má sjá eyjaskeggja halda á helgimyndinni. Þarna eru í hópnum nokkrir ágætir vinir okkar.