Landssamband veiðifélaga (LV) hefur sent sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf þar sem skorað er á ráðherrann að beita sér fyrir því að allt eftirlit með fiskeldi í sjó verði flutt frá Matvælastofnun til Fiskistofu. Í bréfinu er vísað til atburða að undanförnu og getuleysi stofnunarinnar til að upplýsa um slysasleppingar undanfarin ár. Telur Landssambandið að stofnunin ráði engan vegin við það verkefni sem henni var falið með breytingu á fiskeldislögunum 2014.
Bendir Landssambandið á að í sjókvíaeldi er notaður norskur framandi eldisstofn og af þeim sökum verði að gera ríkar kröfum um opinbert eftirlit. Þá er skortur á upplýsingagjöf Matvælastofnunar harðlega gagnrýndur og virðist Landsambandinu að stofnunin virðist líta á óhöpp í sjókvíaeldi sem einhverskonar einkamál sem pukrast megi með. Vísar Landssambandið í bréfi sínu til atvika að undanförnu í kjölfar fréttar Stundarinnar um skemmdir á kví í Tálknafirði og leiðir líkur að því að upplýsingar um það hefðu ekki komið fram hefðu fréttir ekki verið birtar um óhappið í fjölmiðlum. Þá bendir Landssambandið á að Fiskistofa búi yfir innviðum til að sinna eftirliti um land allt en á það skorti hjá Matvælastofnun. Í bréfinu er ennfremur gerð krafa um að settar verði skýrar reglur um upplýsingaskyldu til almennings og hagsmunaðila.
Bréfið: