Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor, segist á Facebooksíðu sinni vilja að Rússar verði settir á lista yfir hryðjuverkasamtök. Hann segist vilja að íslendingar selji fisk til Rússlands, en það „blasi við“ að Rússar hafi staðið fyrir morðinu á Sergej Skrípal og dóttur hans í Bretlandi, „öðrum liðhlaupum til viðvörunar.“
„Við vorum sett á lista um hryðjuverkasamtök. Væri ekki ástæða til að setja Rússastjórn á hann? Eða er listinn aðeins um þá, sem eru litlir og umkomulausir?“
Þarna vísar Hannes til ákvörðunar Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, um að setja Ísland á lista hryðjuverkasamtaka í kjölfar hrunsins árið 2008.
Ljóst er að Hannes vill ganga lengra en íslensk stjórnvöld, sem láta nægja að fresta öllum tvíhliða fundum við Rússa og sniðganga heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi.
Ísland er eina ríkið í hinu samstillta átaki Nato- og ESB ríkja sem ekki sendir rússneska embættismenn úr landi. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir við Morgunblaðið að þetta fyrirkomulag sé vegna smæðar Íslands, aðeins þrír starfsmenn séu í íslenska sendiráðinu í Moskvu, en almenna reglan sé að ríki gjaldi líku líkt í ráðstöfunum sem þessum.
Má túlka það sem svo, að ekki taki því að senda íslenska starfsmenn sendiráðsins heim þar sem þeir séu svo fáir:
„Það skilja þetta allir. Önnur ríki hafa mun fjölmennara starfslið í sínum sendiráðum og því er ólíku saman að jafna þar sem brottvísun sendierindreka er að jafnaði svarað í sömu mynt,“
segir Guðlaugur. Þá hefur Morgunblaðið eftir honum að bandalagsþjóðir Íslands hafi sýnt málinu skilning, en framhaldið sé óljóst og ekki útilokað að til frekari aðgerða komi.