Það er hughreystandi að sjá milljónir Bandaríkjamanna fara saman í fjöldagöngum til að mótmæla byssubrjálæðinu þar í landi. Bak við þetta stendur ungt fólk sem sumt hefur sjálft lent í skotárásum – og á vini sem hafa dáið í þeim. Maður getur bara vonað að þetta hafi áhrif til að stöðva hina brjálæðislegu byssuómenningu sem tröllríður Bandaríkjunum, þessa fáránlegu tímaskekkju. Maður er reyndar ekkert sérlega trúaður á það, en andófið er mikilvægt. Gæti verið að þarna væri að fæðast merkileg pólitísk hreyfing – sem er leidd af ungu fólki. (Kannski eigum við heldur ekkert að þrasa um kosningarétt fyrir 16 ára.)
Mögnuð var framkoma Emmu Gonzalez sem talaði – og þagði – í Washington DC í sex mínútur og tuttugu sekúndur, jafnlengi og það tók ungling með byssu að drepa 17 skólafélaga hennar í Flórída.
Í New York gekk svo Bítillinn Paul McCartney. Í stuttu viðtali sagði hann frá því að stutt þarna frá hefði vinur hans fallið í árás byssumanns.