fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Eyjan

Læknafélagið gagnrýnir landlækni vegna hýsingu persónugagna hjá „einkafyrirtæki út í bæ“

Trausti Salvar Kristjánsson
Föstudaginn 23. mars 2018 15:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reynir Arngrímsson formaður LÍ                             

Læknafélag Íslands (LÍ) lýsir áhyggjum sínum í bréfi til heilbrigðisráðherra, yfir því að embætti landlæknis hafi flutt persónugreinanleg gagnasöfn sín til Advania, en Persónuvernd gerði alvarlegar athugasemdir við með hvaða hætti var staðið að flutningunum. Læknafélagið mótmælir einnig að læknar þurfi að skrá svo miklar upplýsingar um sjúklinga sína í miðlægan gagnagrunn, þar sem sú söfnun upplýsinga er án samþykkis sjúklinganna sjálfra. Segir í bréfinu að læknar sem ekki hafa orðið við þessum kröfum Landlæknisembættisins, hafi setið undir ámæli og hótunum um að þeir verði sviptir starfsleyfi.

Reynir Arngrímsson er formaður LÍ. Hann segir þetta grafalvarlegt mál:

„Það er grafalvarlegt mál að landlæknir flytji skrár sínar með þessum hætti enda var á því ýmis handvömm. Svo hefði þurft að taka víðtækari umræðu um hvort rétt sé að svona viðkvæmar heilsufarsupplýsingar séu hýstar hjá einkafyrirtæki út í bæ. Við höfum áður haft samband út af þessum skrám, við teljum að verið sé að safna of miklum upplýsingum og í sumum tilfellum hafi þurfi að endurskoða reglugerðina sem gildir, því hún er víðtækari en lagaheimildin. Virða þarf betur andmælarétt sjúklings hvort eigi að skrá þetta. Núna eru læknar skyldaðir til að skrá allar upplýsingar um heilsufar ásamt nafni og kennitölu og hvað var gert og ýmislegt fleira. Þetta eru viðkvæmar upplýsingar. Til dæmis þeir sem fara til geðlæknis, vilja þeir að slíkar upplýsingar séu geymdar í fyrirtæki út í bæ ?“

spyr Reynir. Hann telur þetta of langt gengið og segir að með þessu sé landlæknir að krefjast þess af læknum að þeir brjóti trúnaðar- og þagnarheit sitt við sjúklinga:

„Þetta teljum við of langt gengið í skráningu og meðferð upplýsinga og læknar hafa mótmælt þessu og sumir ekki viljað setja þessar upplýsingar fram vegna trúnaðar- og þagnarskyldu læknis við sjúkling sinn. En með þessu er landlæknir einfaldlega að krefjast þess að læknar rjúfi þagnarheit sitt. Við gerðum athugasemd fyrir nokkrum árum við þetta athæfi landlæknis, hvers vegna þessum upplýsingum væri safnað og hvað væri gert við þessi gögn. Við fengum engin svör.  Og til að kóróna þetta, þá er mikið af þessum tölfræðiupplýsingum sem landlæknir vill halda utan um, allt í skrám sjúkratrygginga hvort sem er og landlæknir er með aðgang að þeim skrám og er að safna þeim líka,“

segir Reynir.

 

„LÍ hefur lengi haft áhyggjur af því hversu umfangsmiklum heilsufarsupplýsingum embætti landlæknis safnar um sjúklinga og telur umfangið vera miklu meira en þörf er á og nauðsynlegt er, ekki síst í því ljósi að upplýsingaöflunin er án samþykkis sjúklinganna sjálfra. Söfnunin fer fram með þeim hætti að embætti landlæknis kallar eftir heilsufarsupplýsingunum frá sjálfstætt starfandi læknum. Læknar, sem ekki hafa orðið við kröfum embættisins hafa setið undir ámæli og hótunum um að þeir verði jafnvel sviptir heimild til að reka eigin starfsstofur,“

segir í tilkynningu LÍ, sem lesa má hér að neðan:

 

Læknafélag Íslands (LÍ) hefur sent heilbrigðisráðherra bréf þar sem lýst er áhyggjum yfir því að embætti landlæknis skuli vera búið að flytja persónugreinanleg gagnasöfn sín til einkaaðila og að Persónuvernd skuli hafa þurft að gera alvarlegar athugasemdir við það með hvaða hætti embættið stóð að flutningnum.

Aðdragandi máls þessa er ákvörðun stjórnar Persónuverndar nr. 2017/1195 þar sem stofnunin gerir alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið var að málum af hálfu embættis landlæknis og telur flutning persónuupplýsinga ekki hafa samrýmst 7. og 11. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hægt er að skoða ákvörðunina hér: https://www.personuvernd.is/efst-a-baugi/urskurdir-og-alit/2018/akvordun-um-flutning-gagnasafna-embaettis-landlaeknis-til-advania-mal-nr-2017-1195

LÍ hefur lengi haft áhyggjur af því hversu umfangsmiklum heilsufarsupplýsingum embætti landlæknis safnar um sjúklinga og telur umfangið vera miklu meira en þörf er á og nauðsynlegt er, ekki síst í því ljósi að upplýsingaöflunin er án samþykkis sjúklinganna sjálfra. Söfnunin fer fram með þeim hætti að embætti landlæknis kallar eftir heilsufarsupplýsingunum frá sjálfstætt starfandi læknum. Læknar, sem ekki hafa orðið við kröfum embættisins hafa setið undir ámæli og hótunum um að þeir verði jafnvel sviptir heimild til að reka eigin starfsstofur.

Í bréfi LÍ til ráðherra er bent á svar Persónuverndar dags. 26. október 2016 vegna erindis LÍ um þetta efni. Niðurstaða Persónuverndar er m.a. sú að árétta að í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar gæti verið þörf á að fara yfir löggjöf um persónugreinanlegar heilbrigðisskrár embættis landlæknis í ljósi þeirra sjónarmiða sem rakin eru í fyrrnefndu bréfi og meta hvort breytinga sé þörf. Meðal þess sem skoða mætti væri hvort ástæða væri til að lögfesta sérstakan andmælarétt í tengslum við þær skrár.

LÍ hefur engar fréttir haft af því að ráðuneytið hafi talið bréf Persónuverndarinnar gefa tilefni til slíkrar endurskoðunar. Lagaákvæði eru a.m.k. óbreytt sem og framkvæmd embættis landlæknis á söfnun persónugreinanlegra heilsufarsupplýsinga frá læknum, án samþykkis sjúklinga.

LÍ óskar í bréfinu eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að ræða málið frekar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur