„Fjármálastefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fær algjöra falleinkunn frá nánast öllum hagsmunaaðilum sem fjallað hafa um stefnuna. Fjármálastefnan er sögð vera ógn við stöðugleikann, óraunsæ, ábyrgðarlaus, óvarfærin, ómarkviss, óljós, ósjálfbær, óskýr, ógagnsæ, aðhaldslítil, varasöm og ótrúverðug.“
Svona hefst álit Ágústs Ólafs Ágústssonar þingmanns og fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd á fjármálastefnu 2018-2022 sem verður rædd á Alþingi í dag, samkvæmt tilkynningu.
Í nefndaráliti sínu rifjar hann m.a. upp þung orð sem forsætisráherra og þingmenn Vinstri grænna höfðu um fjármálastefnu síðustu ríkisstjórnar. Stefnunni sem Samtök atvinnulífsins segja keimlíka þeirri sem nú er lögð fram.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir fjármálastefnuna koma niður á bæði efnahagslegum og félagslegum stöðugleika:
„Það er ekki hægt að fjalla um fjármálastefnuna, án þess að setja hana í samhengi við getuleysi ríkisstjórnarinnar til að afla tekna og þá eftirgjöf tekna sem varð í síðustu fjárlögunum. Það blasir við að ekki verður hægt að takast á við brýnustu verkefni samtímans hér á landi eða axla ábyrgð á alþjóðavettvangi, öll áherslan er á skattalækkanir. Slíkt kemur niður á efnahagslegum stöðugleika. Félagslegi stöðugleikinn sem við í Samfylkingunni og Vinstri græn töluðum um í kosningabaráttunni síðasta haust er í órafjarlægð.
Afleiðingarnar þekkjum við allt of vel: enn hærri vextir og yfirvofandi verðbólga. Launafólk og fátækir munu enn einu sinni sitja eftir með sárt ennið. Aðgerðir ríkisstjórnar sem miða að betri lífsafkomu fólks munu fyrst og fremst nýtast þeim tekjuhærri og eignameiri. Óróleiki á vinnumarkaði eróumflýjanlegur.“