Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í dag. Þetta eru stórar og miklar samkomur, landsfundarfulltrúar koma alls staðar að af landinu, enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi getur fyllt Laugardalshöllina eða sett á svið viðlíka sýningu.
Þetta verður varla fundur mikilla átaka. Nýr varaformaður verður kosinn, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Það er orðin hefð í flokknum að hafa karl sem formann en konu sem er frekar á uppleið sem varaformann. Hingað til hefur konan samt ekki náð formannssætinu sjálfu.
Það er heldur ekki búist við því að einhver sérstök mál valdi átökum. Eftir tvennar kosningar á einu ári eru Sjálfstæðismenn tiltölulega sáttir við stjórnarsamstarfið við VG og Framsóknarflokkinn – að minnsta kosti finnst þeim ekki að nú sé tími til að rugga bátnum. En það vita þeir sem hafa komið nærri landsfundum að innan málefnanefnda er unnið heilmikið starf og stundum hart tekist á.
Það sem vekur helst athygli í dagskránni er að Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, ávarpar landsfundinn á besta tíma, klukkan 13.45 á sunnudaginn, á sama tíma og kosning formanns og varaformanns stendur yfir. Flokkurinn þráir heitt að komast aftur til valda í Reykjavík. Eyþóri veitir kannski ekki af því heldur að fá smá vind í bakið, því skoðanakönnunins sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær mældi Samfylkinguna stærsta í Reykjavík og að núverandi meirihluti héldi nokkuð örugglega.
Hér er svo auglýsing um landsfundinn sem birtist í Morgunblaðinu í dag.