Frá því var greint í dag að formannskjör Sjálfstæðisflokksins á landsfundi um helgina verði framkvæmt með rafrænni kosningu, þar sem allir skráðir flokksmenn hafi kosningarétt. Þó verður hafður sá hátturinn á, að þeir sem mæta á landsfundinn, geta enn kosið með gamla laginu, það er skriflega.
Össur Skarphéðinsson, fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar, var fljótur að gera góðlátlegt grín að þessu fyrirkomulagi Sjálfstæðisflokksins á Facebooksíðu sinni. Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert óspart grín að Samfylkingunni þegar hún hafi tekið upp á því að nýta sér tæknina, en núna, daginn sem Samfylkingin mælist stærst í Reykjavík, sé tilkynnt um að Bjarni Ben verði kjörinn formaður með þessari „sósíaldemókratísku“ leið:
„Sjálfstæðismenn gerðu óspart grín að því þegar Samfylkingin braut í blað og tók upp rafrænar kosningar í ýmsum kjörum flokksins. Aðrir flokkar hafa meira og minna tekið þetta upp. Nú er Bjarni Ben kjörinn formaður með þessari sósíaldemókratísku leið. Kannski er táknrænt að frá þessu er sagt á sama degi og Samfylkingin er stærsti flokkurinn í Reykjavík. Líklegast er það Katrín Jakobsdóttir sem hefur þessi jákvæðu áhrif á Bjarna. En hver bjargar henni frá því að binda ráð sitt við refshala?“