Frétt Eyjunnar í gær um Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformann VG, hefur vakið mikla athygli, en Bjarkey sagði í þætti á Hringbraut að greiðsla sem hún þiggur frá Alþingi fyrir húsnæðis- og dvalarkostnað sinn sem landsbyggðarþingmanns, nægði ekki til að greiða af húsnæðisláninu hennar. Greiðsla Alþingis til Bjarkeyjar er rúmar 187 þúsund krónur á mánuði.
Í samtali við Eyjuna í dag sagðist Bjarkey hafa komist klaufalega að orði í þættinum, málið snerist um allt annan hlut:
„Það er látið að því liggja að þingmenn séu jafnsettir, eins og viðbrögðin eru. Mín nálgun er þessi: Landsbyggðarþingmenn eiga ekki að þurfa að borga með sér. Þetta snýst ekki um hvort Alþingi eigi að borga íbúð fyrir þingmann í Reykjavík. Alveg sama hvort þú leigir eða kaupir, heldur snýst þetta um að þingmenn sitji við sama borð, þegar kemur að því að geta sótt vinnu sína. Það skiptir engu máli hvort launin eru 300 þúsund eða milljón. Það má alveg segja það að þetta hafi verið klaufalega orðað hjá mér, að þetta dugi ekki fyrir afborgunum af lánum. Því þetta snýst ekki um það, heldur að þetta dugar ekki fyrir því að halda sér húsnæði. Með öllum þeim rekstrarkostnaði sem því fylgir, hvort sem er á leigumarkaði eða til húsnæðiskaupa.“
Bjarkey vildi ekki taka neina afstöðu til þess hvernig útfærsla Alþingis ætti að vera þannig að jafnræði ríkti meðal þingmanna.
Hún tók þó fram að þessar viðbótargreiðslur Alþingis þyrftu að vera „til sífelldrar endurskoðunar.“
Landsbyggðarþingmenn fá allir 134.041 krónur mánaðarlega í húsnæðis- og dvalarkostnað og geta að auki sótt um álagsgreiðslu sem nemur 53.616 krónum, haldi þeir annað heimili í höfuðborginni.