Rússar koma fram við Breta af fullkominni fyrirlitningu og ófyrirleitni vegna morðtilræðisins við Skripal feðginin þar sem breskur lögregluþjónn liggur líka milli heims og helju. Þeir svara ekki fullkomlega eðlilegum fyrirspurnum um uppruna eitursins sem var notað, það nefnist novichok og er taugaeitur sem var þróað á tíma Sovétsins.
Lavrov utanríkisráðherra segir að Englendingar séu að þessu vegna þess að þeir þori ekki að mæta í heimsmeistaramótið í fótbolta í sumar. Vinaþelið í kringum þá keppni var aldrei mikið – og fer nú hraðminnkandi.
En það vekur samt athygli hversu aðgerðir bresku stjórninnar eru í raun vægar. Það er ekki mikil refsing að senda ekki kóngafólk á HM. Og svo þarf nokkur hópur af rússneskum diplómötum, sem vitað er að stunda njósnir, að hverfa úr landi.
Það er hins vegar ekkert gert til að klípa þar sem svíður undir, en það myndi gerast með hörðum refsiaðgerðum gegn milljarðamæringunum sem eru handgengnir Pútín, hafa margir hverjir efnast vegna sambandsins við hann. London er einn helsti griðastaður slíkra manna, þar hafa þeir komið sér vel fyrir – ásamt auðmönnum víða úr heiminum. Þessir gerspilltu menn sem hafa dafnað innan þjófræðisins í Rússlandi eru háðir hinum vestræna lúxus – eins fjarlægur og hann er rússneskum almenningi.
Til dæmis á Igor Shuvalov, varnarmálaráðherra Rússlands, íbúð í London, skammt frá Downingstræti og er hún metin á jafnvirði íslenskra króna. Íbúðin er sögð vera 500 fetmetrar og er metin á jafnvirði 1,6 milljarða íslenskra króna. Íbúðin er merkt með rauðum lit inn á myndina.
Þetta er fyrirkomulag sem breska stjórnin vill alls ekki raska og allra síst nú þegar hún er vinafá á tíma Brexits – og Bandaríkjaforseta sem hugsar um ekkert annað en sjálfan sig og hefur reyndar einhver einkennileg óútskýrð tengsl við Rússa.
Alexei Navalny, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi – sem fær ekki að bjóða sig fram í forsetakosningunum á sunnudag – segir að ef Bretar vilji í alvöru koma höggi á Kremlarvaldið þá eigi þeir að henda rússnesku auðkýfingunum úr landi.