Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, segir að þingmenn hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka hafi gert með sér óformlegt þagnarbandalag um Kjararáð og vísar í launahækkanir Kjararáðs til þeirra sjálfra. Hann segir þó að kosning Sólveigar Önnu Jónsdóttur hafi rofið þann þagnarmúr:
„En jafnframt er ljóst að nú síðustu daga í kjölfar úrslita í stjórnarkjöri Eflingar hefur sá þagnarmúr rofnað og augljóst að hann verður ekki endurreistur.
Það þýðir að annað hvort verður ríkisstjórnin að horfast í augu við erfiða stöðu núna eða standa frammi fyrir því að allt fari á annan endann á vinnumarkaði snemma á næsta ári,“
segir Styrmir. Þá segir hann einnig ólíklegt að stjórnarsamstarfið lifi af slík átök:
„Og rétt að benda forystumönnum stjórnarflokkanna á að líkurnar á því að stjórnarsamstarfið muni standast slík átök eru ekki miklar.
Vinstri grænir munu ekki hafa pólitískt bolmagn til þess að sitja áfram í ríkisstjórn með núverandi samstarfsflokkum við þær aðstæður. Bakland flokksins mundi ekki sætta sig við það.
Þess vegna mun framtíð þessa stjórnarsamstarfs ráðast af aðgerðum eða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar næstu mánuði.
Það þýðir ekki að bíða fram á næsta ár.“