Framtíð þeirra Rósu Bjarkar Brynjarsdóttur og Andrésar Inga Jónssonar, þingmanna VG, er óráðin innan þingflokksins. Ákvörðun þeirra um að greiða atkvæði með tillögu um vantraust á Sigríði Á. Andersen vakti litla kátínu meðal stjórnarþingmanna og hafa Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson báðir lýst því yfir að þeir líti svo á að stjórnarmeirihlutinn telji 33 þingmenn, en ekki 35 og því séu þau Rósa og Andrés ,hinir svokölluðu „villikettir“, ekki álitin sem meirihlutaþingmenn, heldur standi utan samstarfsins.
Samkvæmt Morgunblaðinu er málið sagt afar viðkvæmt, en haft er eftir ónefndum þingmönnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að það sé í verkahring VG að ákveða framtíð þeirra Rósu og Andrésar sem bæði eiga sæti í tveimur fastanefndum þingsins. Þeirra atkvæði getur því ráðið úrslitum um meirihluta í fjórum af átta fastanefndum þingsins. Hinsvegar sé boltinn hjá Katrínu Jakobsdóttur.
Þessi staða ætti þó ekki að koma neinum á óvart. Afstaða Rósu og Andrésar hefur verið ljós allt frá myndun ríkisstjórnarinnar, sem þau Andrés og Rósa voru andvíg frá byrjun. Hinsvegar eru þau augljós ógn við meirihlutasamstarfið og hefur Katrín Jakobsdóttir örlög þeirra í hendi sér. Ljóst er að Katrín er þó ekki í öfundsverðri stöðu, þau Rósa og Andrés eru vinsæl innan grasrótarinnar, einmitt fyrir andstöðu sína við samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Því bíður Katrínar efið ákvörðun.