Ingvar Mar Jónsson, oddviti Framsóknarflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum, var gagnrýndur í gær af Pawel Bartoszek, sem ætlar sér sæti ofarlega á lista Viðreisnar, en hann er fyrrum þingmaður flokksins. Pawel sagði hugmynd Framsóknar um „frítt í strætó“ vera vonda, því þannig yrði skorið í burtu tveir milljarðar af rekstrarfénu, sem myndi skila sér í verri þjónustu og nánast tvöföldun á framlögum sveitafélaganna.
Ingvar Mar segir kostnaðinn vera nær einum milljarði:
„Það kostar nær einum milljarði að hafa frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu því fargjaldatekjur strætó upp á 2 milljarða eiga við um allar ferðir strætó, semsagt líka út á land.“
Þá segir hann verkefni sem slíkt hafa gengið vel á Akureyri:
„Þetta hefur virkað á Akureyri. Frítt í strætó er góð og ódýr leið til að greiða fyrir umferð á götum borgarinnar og til að fá fleira fólk í vagnana. Þess vegna viljum við Framsóknarfólk hafa frítt í strætó í eitt ár á höfuðborgarsvæðinu sem tilraunaverkefni. Akureyringar þrefölduðu farþegafjöldann á þremur árum með því að hafa „Frítt í strætó,“
segir Ingvar og vísar í frétt frá árinu 2010 þar sem ánægju er lýst með framtakið fyrir norðan:
Samkvæmt upplýsingum Odds Helga Halldórssonar formanns framkvæmdaráðs er gert ráð fyrir því að áfram verði frítt á strætó á Akureyri á næsta ári. Oddur Helgi segir að samkvæmt fjárhagsáætlun þessa árs hafi verið settar 104 milljónir króna í rekstur Strætisvagna Akureyrar og að gert sé ráð fyrir að þær áætlanir standist. Áður en frítt var í strætó á Akureyri var árlegur farþegarfjöldi um 150 þúsund á ári. Árið 2007, þegar fyrst var ákveðið að hafa frítt í strætó, ferðuðust um 330 þúsund manns með vögnum SVA og árið 2008 voru farþegarnir um 440 þúsund alls. Á síðasta ári voru farþegar SVA um 480 þúsund og á þessu ári er gert ráð fyrir að þeir verði enn fleiri eða á bilinu 480-500 þúsund.
„Frítt í strætó er góð og ódýr leið til að greiða fyrir umferð á götum borgarinnar og til að fá fleira fólk í vagnana. Þess vegna viljum við Framsóknarfólk hafa frítt í strætó í eitt ár á höfuðborgarsvæðinu sem tilraunaverkefni. Akureyringar hafa þrefaldað farþegafjöldann með því að hafa „Frítt í strætó“,
segir Ingvar á Facebooksíðu sinni.