Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, uppskar mikinn hlátur þingheims í dag, er hann rifjaði upp orð Páls Magnússonar í Kastljósinu í gær. Þar var fjallað um stöðu Sigríðar Á. Andersen, en umræður um vantrauststillögu í hennar garð hefjast klukkan 16.30 í dag. Páll taldi ekki ástæðu til að bera fram tillögu um vantraust, en komst heldur klaufalega að orði:
„Ef menn vilja flytja vantrauststillögu af þessari ástæðu á ráðherra, þá verða þeir bara að gera það upp við sig. En sjálfur myndi ég, ef ég væri í stjórnarandstöðu, bíða eftir öðru tækifæri til að vantreysta ráðherra því ég er alveg viss um það að næstum því allir þeirra munu gera meiri mistök en þessi á kjörtímabilinu sem var að byrja.“
Á orðum Páls má skilja, að hann lofi því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar muni gera stærri mistök á kjörtímabilinu heldur en Sigríður gerði í Landsréttarmálinu. Og það sé betra tækifæri til vantrauststillögu heldur en nú.
Björn Leví sagði það kjörið tækifæri fyrir Pál nú, þótt heldur seint væri í rassinn gripið, að hann sjálfur legði fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina, til að koma í veg fyrir þau mistök sem hann lofaði að myndu eiga sér stað. Uppskar Björn mikinn hlátur við þessi orð.
„Þetta er mjög áhugaverð hótun til þjóðarinnar, stærri mistök eru á leiðinni,“
sagði Björn Leví einnig. Þá reifar hann einnig málið á Facebooksíðu sinni, sem sjá má hér að neðan.