fbpx
Föstudagur 16.ágúst 2024
Eyjan

Ræðumenn þagnarinnar

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 5. mars 2018 08:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari. Mynd/Pressphotos.biz

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

Ég skrifaði bók sem út kom í nóvember síðast liðnum. Hún heitir „Með lognið í
fangið“ og fjallar um „afglöp Hæstaréttar eftir hrun“. Í bókinni er að finna gagnrýni á dómsýslu Hæstaréttar, sérstaklega í málum sem telja má til eftirmála efnahagshrunsins 2008. Færð eru í bókinni nákvæm rök fyrir ályktunum hennar
um þessi málefni, enda er mér vel ljóst að gagnrýni sem þessi missir marks ef
hún er ekki vel rökstudd.

S.l. miðvikudag boðaði Lögrétta, félag laganema við Háskólann í Reykjavík, til
umræðufundar um bók mína. Var ég fenginn til að hafa framsögu í því skyni að
segja deili á efni hennar. Síðan stóð til að fá annan framsögumann sem væri
andvígur sjónarmiðum sem fram koma í bókinni, að minnsta kosti að einhverju
leyti, og væri þá tilbúinn til að mæta til fundarins og láta mig svara fyrir. Enginn
fékkst til þess. Samkvæmt frásögn Páls Magnúsar Pálssonar, formanns Lögréttu,
hafði félagið leitað til tveggja dómara við Hæstarétt, núverandi og fyrrverandi
formanna Dómarafélags Íslands og formanns Lögmannafélags Íslands (LMFÍ).
Enginn vildi mæta.

Bókin mín þótti nægilega merkileg til að koma til sérstakra umræðna á
aðalfundi Dómarafélags Íslands, sem haldinn var síðari hluta nóvember s.l. Þar
vék þáverandi formaður félagsins, Skúli Magnússon, að mér og bók minni ræðu
sinni og fann annmarka á hvoru tveggja. Samkvæmt fréttum fjölmiðla af
fundinum dylgjaði hann um að ég hefði skipulagt aðgerðir sem lutu að því að
birta opinberlega upplýsingar um fjármál dómara í desember 2016. Þá sakaði
hann mig um ómálefnalegan málflutning og rangar ásakanir á hendur dómurum.
Taldi hann ekki furðulegt, eins og hann komst að orði, að tiltekinn dómari „hafi
nýlega misst þolinmæðina“ og höfðað meiðyrðamál gegn mér. Með þessum
ummælum tókst formanninum að gera varaformann félagsins vanhæfan til að
dæma í nefndu meiðyrðamáli.

Í fréttaflutningi eftir fundinn var einnig sagt frá því að formaður LMFÍ hefði
ávarpað fundinn og notað tækifærið til að veitast að mér og bók minni. Mun
hann hafa sakað mig um að standa fyrir óréttmætum árásum á dómstóla og fara
með rangt mál um atriði sem snerti birtingu á upplýsingum um fjármál dómara
aftur í tímann.

Það kom mér undarlega fyrir sjónir að veist skyldi hafa verið að mér með
þessum hætti á lokuðum fundi dómara, þar sem mér var ekki gefinn kostur á að
svara fyrir mig. Ég skrifaði því stjórn LMFÍ bréf og stakk upp á, að félagið héldi
opinn fund þar sem formaðurinn bæri fram ávirðingar sínar og mér gæfist kostur
á að svara. Þeirri málaleitan var hafnað með „einnar línu bréfi“.
Það var við þessar aðstæður sem laganemarnir við Háskólann í Reykjavík
boðuðu til fundar síns. Þar var ég fenginn til að gera grein fyrir bók minni. Þá
vildu fundarboðendur líka skapa vettvang fyrir gagnrýnendur mína til að gera
grein fyrir gagnrýni sinni og þá þannig að mér gæfist kostur á að svara henni.
Leitað var til fyrrgreindra lögfræðinga í því skyni. Nú vék svo við að þeir
höfnuðu allir þátttöku í fundinum, líka þeir tveir sem höfð veist að mér á
lokuðum fundi dómara, þar sem ég var ekki viðstaddur.

Segja má að í okkar samfélagi séu tjáningarskipti sú aðferð sem við notum til
að fjalla um opinber málefni sem ágreiningi valda. Okkar aðferð er að láta rök
mæta rökum, svo að hlustendur geti myndað sér skoðun um ágreiningsefni.
Kannski er þetta sérstaklega mikilvægt þegar rætt er um meðferð ríkisvalds, sem
hefur hlotið rökstudda gagnrýni á opinberum vettvangi.

Lesendur ættu líka að velta því fyrir sér hvernig þeir sjálfir myndu bregðast við
ef þeir færu með ríkisvald og meðferð þeirra á því hlyti gagnrýni sem þeir teldu
að ekki ætti rétt á sér. Svarið blasir við öllum hugsandi mönnum. Þeir myndu
svara fyrir sig og leiðrétta rangar staðhæfingar og ályktanir sem að þeim hefðu
beinst.

Dómarar og varðmenn þeirra þegja hins vegar þunnu hljóði. Þeir hafna meira
að segja þátttöku í fundum þar sem um málefnið skal rætt, jafnvel þó að
einhverjum þeirra hafi verið svo mikið niðri fyrir að þeir hafi veist að
gagnrýnanda sínum á lokuðum fundi að honum fjarstöddum.
Getur verið að þessir höfðingjar viti ekki sitt rjúkandi ráð og kunni engin
frambærileg svör við þeirri gagnrýni á störf dómstóla sem greinarhöfundur hefur
birt opinberlega?

Það skyldi þó ekki vera.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: Óreiðuhagstjórn hrekur ungt fólk úr landi – tvær þjóðir í landinu

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: Óreiðuhagstjórn hrekur ungt fólk úr landi – tvær þjóðir í landinu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrum seðlabankahagfræðingur segir að við séum óþægilega nálægt samdráttarskeiði

Fyrrum seðlabankahagfræðingur segir að við séum óþægilega nálægt samdráttarskeiði
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Íslamskir ofsatrúarmenn

Björn Jón skrifar: Íslamskir ofsatrúarmenn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jón Sigurður skrifar – Uns engin er eftir nema bankinn og asninn

Jón Sigurður skrifar – Uns engin er eftir nema bankinn og asninn
Eyjan
Fyrir 1 viku

780 milljón króna gjaldþrot rekstrarfélags Sjálands – Annað gjaldþrot Stefáns á stuttum tíma

780 milljón króna gjaldþrot rekstrarfélags Sjálands – Annað gjaldþrot Stefáns á stuttum tíma
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ögmundur segir að ekki ríki einhugur um stuðning Íslendinga við Úkraínu – „Vígvæðing grefur undan friði“

Ögmundur segir að ekki ríki einhugur um stuðning Íslendinga við Úkraínu – „Vígvæðing grefur undan friði“