fbpx
Sunnudagur 18.ágúst 2024
Eyjan

Ósamræmi milli þróunar menntunar og starfa á vinnumarkaði

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 5. mars 2018 17:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ný skýrsla hagdeildar ASÍ um vinnumarkaðinn fjallar um þær breytingar sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði síðustu ár og áratugi.

Í skýrslunni er vakin athygli á misræmi milli þróunar starfa og menntunar. Hlutfallslega hröð fjölgun á störfum í þjónustu og verslun, þrátt fyrir síhækkandi menntunarstig þjóðarinnar, vekur upp spurningar um hvort skortur á skýrri atvinnustefnu á Íslandi hafi valdið hlutfallslega lítilli fjölgun virðisaukandi starfa.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.

Staða erlends launafólks á Íslandi

Skýrslan varpar líka ljósi á stöðu erlends launafólks á Íslandi. Aukin eftirspurn eftir starfsfólki í ferðaþjónustu og byggingariðnaði hefur kallað á aðflutning erlends starfsfólks hingað til lands í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr. Árið 2017 var fjöldi erlendra ríkisborgara sem fluttust til Íslands, umfram þá sem fluttust héðan, í sögulegu hámarki og nú er talið að erlent launafólk sé um 13% launafólks á Íslandi.

Algengt er að erlent launafólk flytji hingað til lands aðeins tímabundið til að afla meiri tekna en í heimalandi sínu. Íslenskum starfsmannaleigum hefur fjölgað hratt með efnahagsuppsveiflunni, á vegum þeirra starfa erlendir starfsmenn í tiltekinn tíma og eru leigðir út til notendafyrirtækja. Einnig kemur starfsfólk á vegum erlendra starfsmannaleiga og erlendra þjónustufyrirtækja sem hafa aðgengi að íslenskum markaði í gegnum fjórfrelsi Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Starfsmannaleigustarfsmenn starfa flestir innan byggingariðnaðarins og í ferðaþjónustu.

Þessi þróun kallar á breyttar áherslur við eftirlit og greiningu á vinnumarkaðnum. Í skýrslunni kemur fram að hætta sé á að vinnumarkaðstölfræði, t.d. úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands, nái ekki yfir erlent starfsfólk sem ekki hefur hér fasta búsetu og að fjöldi launafólks í vinnuaflsfrekum greinum, þar sem erlent starfsfólk er í meirihluta, sé því vanmetinn. Einnig er fjallað um algeng brot á réttindum starfsmanna starfsmannaleiga og hvernig þeir eru jaðarsettir í samfélaginu. Aðildarfélög Alþýðusambands Íslands hafa fengið á sitt borð fjölda brota atvinnurekenda á erlendum starfsmönnum íslenskra starfsmannaleiga, sem eru jaðarsettir í samfélaginu og leigja gjarnan húsnæði af atvinnurekendum sínum. Vísbendingar eru um að almennt vinni erlent launafólk lengri vinnudaga en íslenskt launafólk, fái að meðaltali lægri laun, greiði meira fyrir leigu og þurfi frekar að þola réttindabrot á vinnumarkaði.

Ungt fólk á vinnumarkaði

Brot á launafólki einskorðast þó ekki við erlent launafólk. Í síðasta kafla skýrslunnar er fjallað um réttindi hlutastarfsmanna, tímabundið ráðinna starfsmanna og verktaka og mikilvægi þess að réttindi þeirra séu tryggð. Á síðustu árum hafa ráðningarform orðið lausari í sniðum þar sem vinnutími er slitróttur og atvinnuöryggi lítið. Afstaða ungs fólks til vinnumarkaðarins er að einhverju leyti ólík því sem áður hefur þekkst, en þættir eins og sveigjanleiki og fjölbreytni þykja ekki síður eftirsóknarverðir en föst ráðningarsambönd til langs tíma. Því er mikilvægt að verkalýðshreyfingin og stjórnvöld tryggi að verja megi réttindi, og bæta megi kjör, alls launafólks óháð ráðningarformi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Nú er upplýsingum um kosningabaráttu Trump lekið í gríð og erg – Er hann í vanda?

Nú er upplýsingum um kosningabaráttu Trump lekið í gríð og erg – Er hann í vanda?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: Óreiðuhagstjórn hrekur ungt fólk úr landi – tvær þjóðir í landinu

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: Óreiðuhagstjórn hrekur ungt fólk úr landi – tvær þjóðir í landinu