Sumir hafa sagt að kosið verði um umferðarhnúta í borgarstjórnarkosningunum í vor. En svo hef ég heyrt aðra segja að svo verði alls ekki. Kosningarnar verði ekki fyrr en í lok maí, veðrið verði orðið betra, skólarnir komnir í frí og umferðarteppurnar minni. Sjálfstæðisflokkurinn kynnti kosningastefnumál sín í dag. þar er ekki talað um að hætta við Borgarlínuna né nýja Landspítalann, en hins vegar eru þarna fyrirætlanir um að byggja ný hverfi í Örfirisey og á Keldnaholti og svo um að setja niður samgöngumiðstöð við Kringluna.
En talandi um umferðina. Allt í einu fóru menn að tala um göng undir Miklubrautina eins og það væri eiginlega sjálfsagt mál. Staðreyndin er samt sú að við höfum aldrei farið í svo umhverfisvænar lausnir á bílavandanum í borginni. Ég segi eins og er, ég hef ekki nokkra trú á að þetta verði að veruleika, ekki fremur en t.d. Sundabrautin sem virðist algjörlega hafa gufað upp og maður heyrir ekki minnst á nema í einhverju furðulegu rugli frá Vegagerðinni sem vill helst klína henni ofan í eitthvert besta byggingaland í borginni.
Aðaltappinn á leiðinni niður og upp úr bænum er á mörkum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Ég hef stundum rekist á þá tillögu að rífa blokkina sem stendur næst gatnamótunum til að greiða fyrir umferðinni eða þá taka af henni eina álmuna.
En þá er hins að gæta að þetta er eitt fallegasta fjölbýlishús í Reykjavík, teiknað af Einari Sveinssyni sem líka er höfundur Melaskólans, Heilsuverndarstövarinnar og Hringbrautarblokkanna. Einar er einn besti arkitektinn sem hefur starfað í Reykjavík – gluggarnir syðst á húsinu eru sérlega þokkafullir. Hið sama er er kannski ekki hægt að segja um útsýnið út um þá núorðið.
Er verjandi að rífa þetta til að greiða fyrir bílaumferð?