Donald Trump ætlar að hækka tolla á stál um 25 prósent og á ál um 10 prósent. Hann lýsir því yfir í tvíti að viðskiptastríð séu holl, annars myndum við ekki hafa Alþjóða viðskiptastofnunina. En líklegt er að Evrópa, Kanada, Kína, Mexíkó og fleiri ríki svari í sömu mynt.
Einn vinur minn í Bandaríkjunum segir – hvers vegna að hjálpa bandarísku stál- og álrisunum en skaða alla aðra í landinu? Er Trump að vinna fyrir Pútín? spyr hann.
Menn hafa rifjað upp þegar tollar voru settir á í stórum stíl rétt um það leyti þegar heimskreppan var að hefjast 1929. Þetta var byggt á frumvarpi sem var lagt fram af þingmönnum sem hétu Willis Hawley og Reed Smoot. Á tíma Roosevelts forseta var ráðist í að afnema þessa lagasetningu. Æ síðan hefur Smoot-Hawley lagasetningin verið umfjöllunarefni hagfræðinga – og líka kennsluefni í sögutímum í skólum vestanhafs.
Kannski er þetta flestum gleymt fyrr en nú að Trump – ólíkt sumum fyrrverandi forsetum – ætlar að standa við digurbarkalegar yfirlýsingar sínar um verndartolla.
En hér er atriði úr hinni stórkostlegu gamanmynd Ferris Bueller´s Day Off. Þar er kennari að reyna að segja hálfmeðvitundarlausum nemendum frá Smoot-Hawley.