Þór Saari fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar segir Þórlaugu Ágústsdóttur frambjóðanda í prófkjöri Pírata í Reykjavík ekki gera sér grein fyrir í hvernig samfélagi hún búi og hljómi eins og „hefðbundin íslenskur stjórnmálaspeni með yfirgripsmikla vanþekkingu“ þegar hún tali um sósíalisma.
Ummælin lét þingmaðurinn fyrrverandi falla í athugasemdakerfi DV undir viðtalsbroti við Þórlaugu þar sem hún sagði Pírata eiga litla samleið með sósíalistum. „Við búum alltaf á endanum í markaðssamfélagi þar sem markaðurinn ræður þrátt fyrir að við séum með verkalýðshreyfingu sem eigi að virka. Við getum ekki stokkað upp samfélaginu þannig að það sé einhver nefnd sem ákveði hvers virði hlutirnir eru,“ sagði Þórlaug.
Þór Saari sagði þessi ummæli Þórlaugar hljóma „…sem hefðbundin íslenskur stjórnmálaspeni með yfirgripsmikla vanþekkingu.“
Þórlaug bað Þór um að útskýra mál sitt:
Af hverju þú heldur að ég sem er að ljúka meistaragráðu í Alþjóðastjórnmálum viti ekki í hvernig samfélagi við búum í. Ég hef stjórnað fyrirtækjum, unnið í stjórnsýslu og líka pakkað fiski og skúrað gólf. Ef þú vissir eitthvað um stjórnmálafræði þá er sósialismi einfaldlega hægfara kommúnismi.
Þór sagði að skoðun hennar væri einfaldlega röng, bæði hvað varðar markaðsbúskap á Íslandi og sósíalisma:
Nú veit ég ekki hvar þú ert að læra stjórnmálafræði, en eitthvað virðist námsefnið vera takmarkað.
Umræðan færðist yfir í Fésbókarhópinn Sósíalistaflokkur Íslands þar sem Gunnar Smári Egilsson gagnrýndi einnig Þórlaugu.
Ég er jú öryrki og sjúklingur með skerta starfsgetu sem vinn að megninu til heiman úr rúmi eða í þartilgerðum stól sem gerir mér það kleift að liggja á fundum. Því fer ég fram á svör frá ykkur Saari um hvernig ég sé á spenanum,
segir Þórlaug. Þór segist ekki hafa verið að blanda örorku saman við spena:
Ég hef ekki haft hugmynd um það hingað til að þú værir öryrki. Stjórnmálaspeni er manneskja sem sækir í stjórnmál til þess eins að komast að, án þess að eiga erindi. Af þeim er töluverður fjöldi en nærtækast er að nefna Ásmund F. ökumann.
Þórlaug sagði svo fyrir neðan:
Þór Saari var þetta afsökunarbeiðni eða bara játning á því að þú hefðir bara EKKERT lesið viðtalið áður en þú fórst að tjá þig?
Þórlaug krefst afsökunarbeiðni frá Þór:
Þór þarf að útskýra það og ég mun rifja það upp í hvert sinn sem ég sé hann commenta einhverstaðar að hann skuldar mér afsökunarbeiðni fyri að hafa reynt að drulla á mig persónulega sig án þess að hafa lesið viðtalið eða vita nokkuð um mig persónulega.
Hann þekkir lífið á „stjórnmálaspenanum“ og þarf að skýra hvað hann á við.