Selfyssingar munu hafa samþykkt nýtt skipulag miðbæjar. Það var gert á bæjarstjórnarfundi 21. febrúar. Framkvæmdin verður á hendi félags sem nefnist Sigtún. Selfoss tilheyrir sveitarfélagi sem heitir Árborg. Þar er líka Eyrarbakki. Í þeim bæ eru menn lítt hrifnir, enda á Eyrarbakki sögu sem nær aftur á miðaldir – ólíkt hinum sögulitla Selfossi.
En það er athyglisvert að skoða þetta skipulag. Eins og hefur oft komið fram er hugmyndin að byggja í gömlum stíl, og ekki bara það, þarna verða „endurreist“ gömul og sögufræg hús.
Og hér er dálítil þraut, getið þið komið auga á hvaða hús þetta eru. Ég greini eina af Skálholtskirkjunum, Glasgow sem stóð í Grjótaþorpinu, verksmiðjuhús Sláturfélags Suðurlands og Hótel Ísland. Og mér sýnist þarna vera gamla apótekið sem stóð við Austurvöll. Hér má sjá myndband af fyrirhuguðum byggingum.
Svo er spurningin. Mun þetta virka – eða ekki? Það er svosem ekki sérlega aðlaðandi miðbæjarkjarni á Selfossi eins og er, en nógu fjári er mikið af fólki þar á ferðamannatímanum.