fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Heilbrigðiskerfið harðlega gagnrýnt af Ríkisendurskoðun

Trausti Salvar Kristjánsson
Mánudaginn 26. febrúar 2018 16:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, eru lykilstofnanir heilbrigðiskerfisins harðlega gagnrýndar. Þar á meðal eru heilbrigðisráðherra, Landspítalinn, Embætti landlæknis og Sjúkratryggingar Íslands. Í niðurstöðu segir meðal annars:

 

„Að mati Ríkisendurskoðunar eru annmarkar á starfsumhverfi, starfsemi og starfsháttum Sjúkratrygginga Íslands þegar horft er á gerð, framkvæmd og eftirlit með nokkrum kostnaðarsömustu samningum stofnunarinnar um heilbrigðisþjónustu. Einnig má draga í efa að samningarnir séu í öllum tilvikum hagkvæmir eða stuðli að skilvirkni heilbrigðiskerfisins í heild. Ekki verður því séð að þessir samningar nái því markmiði að kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu séu markviss líkt og lög um sjúkratryggingar áttu að ná fram.“

 

Þá segir um heilbrigðisráðherra að hann hafi ekki mótað heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustu sem starfsemi Sjúkratrygginga geti tekið mið af , líkt og lög geri ráð fyrir.

 

„Heilbrigðisráðherra hefur ekki mótað heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustu sem starfsemi Sjúkratrygginga Íslands getur tekið mið af, eins og bæði lög um heilbrigðisþjónustu og sjúkratryggingar gera ráð fyrir. Stjórn stofnunarinnar hefur ekki heldur mótað langtímastefnu fyrir stofnunina eins og henni ber samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Kaup og samningar stofnunarinnar hafa að miklu leyti ráðist af áherslum fjárlaga, tímabundnum átaksverkefnum og úrlausn tilfallandi vandamála hverju sinni. Slíkar ráðstafanir stuðla ekki að hagkvæmni og skilvirkni til lengri tíma litið. Við slík skilyrði hafa samningar Sjúkratrygginga í raun verið stefnumótandi fyrir þróun og gerð heilbrigðiskerfisins.“

 

Þá segir í skýrslunni að togstreita sé milli lykilstofnana innan heilbrigðisþjónustunnar, það er Sjúkratrygginga Íslands, Embættis landlæknis og Landspítala:

 

„Úttekt Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós vissa togstreitu milli lykilstofnana í heilbrigðiskerfinu, þ.e. Sjúkratrygginga Íslands, Embættis landlæknis og Landspítala. Að mati Ríkisendurskoðunar stafar sú togstreita að hluta til af óljósri stefnu stjórnvalda um skipulag heilbrigðisþjónustunnar. Þetta hefur hamlað því að samningar, kaup og greiðsluþátttaka vegna heilbrigðisþjónustu séu markviss og þjóðhagslega hagkvæm. Þá hefur skort á samvinnu milli landlæknis og Sjúkratrygginga um eftirlit með framkvæmd samninga. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að velferðarráðuneyti beiti sér fyrir úrlausn þessara mála.“

 

Í tilkynningu segir:

Ómarkviss kaup á heilbrigðisþjónustu

Gera þarf ráðstafanir til að bæta samninga Sjúkratrygginga Íslands um heilbrigðisþjónustu. Að mati Ríkisendurskoðunar verður ekki séð að þessir samningar hafi almennt tryggt markviss kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu. Einnig má efast um að samningarnir séu í öllum tilvikum hagkvæmir eða stuðli að aukinni skilvirkni heilbrigðiskerfisins í heild. Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, Sjúkratryggingar Íslands sem kaupandi heilbrigðisþjónustu.

Í skýrslunni er því beint til velferðarráðuneytis að það marki stefnu um heilbrigðisþjónustu og sjái til þess að lykilstofnanir heilbrigðiskerfisins vinni á samhæfðan hátt að markmiðum hennar. Í slíkri stefnumörkun þarf að vera skýrt hvaða þjónustu heilbrigðisstofnanir eigi að veita og hvaða þjónustu eigi að kaupa af öðrum aðilum. Það stefnuleysi sem einkennir málaflokkinn hefur leitt til þess að áherslur fjárlaga hverju sinni, tímabundin átaksverkefni og úr­lausn tilfallandi vandamála hafa mótað ákvarðanir um samn­inga um heilbrigðisþjónustu og þar með þróun heilbrigðiskerfisins.

Einnig er því beint til ráðuneytisins að tryggja eðlilega verkaskiptingu við gerð samninga. Dæmi eru um að velferðarráðuneyti geri samninga án aðkomu Sjúkratrygginga eða ákveði einhliða forsendur þeirra. Að mati Ríkisendurskoðunar er þetta óeðlilegt. Um leið þarf að efla nauðsynlega fagþekkingu innan Sjúkratrygginga og getu þeirra til að annast greiningar, vinna að gerð samninga og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra.

Dæmi eru um að samningar Sjúkratrygginga hafi ekki stuðst við fullnægjandi greiningar á þörfum, kostnaði og ábata. Þá hafa verið gerðir samningar sem kveða ekki nægilega skýrt á um skilgreint magn, gæði eða jafnt aðgengi landsmanna. Að mati Ríkisendurskoðunar má draga í efa að víðtakir rammasamningar stuðli að markvissum og hagkvæmum kaupum á heilbrigðisþjónustu. Því er hvatt til að meta kosti þess að semja um þjónustu einstakra sérgreina. Þá telur Ríkisendurskoðun brýnt að nýr samningur Sjúkratrygginga Íslands við Landspítala um framleiðslutengda fjármögnun verði þróaður áfram í því skyni að hann verði nýttur til að hámarka skilvirkni og hagkvæmni spítalans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka